141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Þetta er alveg hárrétt, framleiðsla á þessum vettvangi er mjög líkleg til að auka verðmætasköpun í landinu og leiða af sér arðsamari störf. Það er rétt að framleiðni okkar er of lítil. Við framleiðum of lítið á hverja vinnustund en það eru nefnilega akkúrat þau hátæknistörf sem skapast meðal annars í kringum orkufrekan iðnað, sem auka verðmæti á bak við hvert starf.

Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig það samkeppnisforskot sem við höfðum getur rýrnað og hefur gert það, álit okkar sem land og þjóð til að byggja upp fjárfestingu í hefur rýrnað. Við höfum fengið lélega einkunn í samanburði við önnur lönd í þeim skýrslum sem hafa verið gerðar, m.a. vegna pólitískrar óvissu og kannski ekki síst þess vegna. Það er því enn mikilvægara að þjóðin geri sér grein fyrir því að við næstu kosningar mun það ráðast hvert skuli stefnt, hvort snúum við af þeirri stefnu sem hefur fært okkur eins mikið niður brekkuna og raun ber vitni. Það er í raun alveg með ólíkindum hversu mikið andstæðingar orkufreks iðnaðar, vinstri flokkarnir í þessu landi, hafa reynt að skíta út svokallaða stóriðju. Menn ættu að vera stoltir af því að framleiða hér álið, einhvern umhverfisvænsta málm í heimi, og menn ættu að vera stoltir af því að gera það með endurnýjanlegum orkugjöfum. En hvernig var brugðist við við þær erfiðu aðstæður þegar fyrirtækið Alcoa tilkynnti í fyrra að þeir væru hættir við áform sín um uppbyggingu á Bakka? Það var klappað (Forseti hringir.) hér í þingsal. Hvert er svo markmiðið núna? Það er að semja við öðruvísi iðnaðarfyrirtæki, kísilmálmfyrirtæki sem (Forseti hringir.) menga fjórum, fimm sinnum meira. Það er ekkert samræmi í þeim málflutningi, það er ekkert hald í því. Það er eins og fólk viti ekki hvað (Forseti hringir.) það er að tala um.