141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau voru mjög áhugaverð ummælin sem hv. þingmaður hafði um Hagavatnsvirkjun. Sá sem hér stendur hefur verið mikill talsmaður þess að hún yrði færð í nýtingarflokk, lagði m.a. fram þingsályktunartillögu þess efnis bæði í fyrra og í haust. Þau rök sem fram hafa komið eru sláandi. Þetta er kannski lýsandi fyrir það pólitíska plagg sem hér er og það ójafnvægi sem mér finnst gæta í meðförum ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar þeir fóru yfir umsagnir og vísuðu til þess að þær hefðu verið þannig að hægt hefði verið að færa umtalsverðan fjölda af virkjunum úr nýtingarflokki í biðflokk, sérstaklega vatnsaflsvirkjanir sem mér finnst mjög sérkennilegt.

Eins og hv. þingmaður kom inn á voru umsagnirnar um Hagavatnsvirkjun mjög jákvæðar sem og umræðan á fundum nefndarinnar. Þess vegna langar mig að fá þingmanninn til að staðfesta þann skilning minn, ef hann er honum sammála, að þau sjónarmið sem komu fram hjá þeim sem voru gegn virkjuninni voru m.a. þau að menn væru til í að hækka vatnsyfirborðið með stíflu, eins og hv. þingmaður minntist á, til að búa til allt nema nýtinguna, allt nema virkjun. Það mátti fara í allar þessar framkvæmdir en ekki fá arðsemi af framkvæmdunum. Það var líka talað um að sjónmengun yrði af línum, en það kom í ljós að virkjunaraðilinn hugðist leggja þær í jörðu. Það kom líka fram að þegar vatnsborðið væri rokkandi vegna virkjunar mundi það hugsanlega valda meira foki eða það yrði í það minnsta jafnmikið og nú. En þá kom fram hjá virkjunaraðilanum að þetta væri jafnrennslisvirkjun þannig að vatnsborðið mundi aldrei lækka eða óverulega. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að þetta (Forseti hringir.) sé sönnun þess að þetta sé pólitískt plagg og menn hafi ekki tekið tillit til þeirra hagsmuna sem þarna eru og umsagna sem bárust til ráðherranna.