141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst er spurt um samráðsferlið og hvort það hafi verið fullnægjandi að mínu mati. Já, ég tel að það hafi verið algerlega fullnægjandi og vel það því það má lesa í plöggum sem fylgja með þessari þingsályktunartillögu, og eins víðast hvar á vefnum og á rammaáætlun.is, að það var mjög faglega og vel að verki staðið. Ef við lítum yfir það hverjir voru tilnefndir til dæmis í seinni hópinn eru þeir tilnefndir af náttúruverndarsamtökum, Orkustofnun og Umhverfisstofnun þannig að allir málsaðilar voru kallaðir að þeirri vinnu og allir fengu að koma sínum sjónarmiðum að.

Almenningur kom sjónarmiðum sínum að með því samráðsferli og fyrir utan það voru haldnir fleiri, fleiri kynningarfundir á verkefninu. Þess vegna er svo sorglegt í hvaða ferli málið er komið og að verið sé að búa til rammaáætlun Vinstri grænna þegar þetta víðtæka samband hafði náðst. Það er alveg hreint með ólíkindum. (Gripið fram í.) Að vísu einnig nokkurra umhverfisverndarsinnaðra þingmanna Samfylkingarinnar, því hæstv. utanríkisráðherra kallar fram, í en við sjáum að það er mikil vinstri græn slagsíða á því. Ég tel það heldur ekki vera hlutverk stjórnmálaflokks, því við vitum hver ræður ferðinni í þessu máli í staðinn fyrir ESB-umsóknina, að mynda einhverja framtíðarsýn þegar málið er komið í uppnám. Nú verður að stíga til baka eins og þingflokkur Framsóknarflokksins hefur gert. Við höfum lagt það til að ríkisstjórnin taki málið aftur til sín og vonandi endurskoði málið í framhaldinu til að koma ferlinu aftur í sátt.