141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi einhverjar upplýsingar um það eða skoðun á því hvers vegna og hvenær var ákveðið að víkja frá því uppleggi sem var í skipunarbréfi verkefnisstjórnar. Skipunarbréf verkefnisstjórnar var gefið út 21. ágúst 2007 og í því kemur fram að iðnaðarráðherra muni á grundvelli niðurstöðu skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra og verkefnisstjórnina leggja fyrir Alþingi fyrir lok ársins 2009 tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Hér kemur ekkert fram um að iðnaðarráðherra hafi ætlað sér að hafa eitthvert samráðsferli eftir að verkefnisstjórnin lyki störfum. Þvert á móti kemur sú hugsun fram að verkefnisstjórninni var falið að hafa víðtækt samráð við almenning og alla hagsmunaaðila á starfstíma sínum með kynningarfundum á sérstakri vefsíðu. Það var alveg ljóst þegar verkefnið var sett af stað, eða þessi áfangi vinnunnar, að það var ætlun ráðherra og stefna ríkisstjórnarinnar að verkefnisstjórnin mundi hafa þetta samráð og halda utan um það.

Ég spyr hv. þingmann: Veit hann hvenær þessi stefnubreyting átti sér stað, hvers vegna og hvernig hún var rökstudd? Mér finnst mjög athyglivert hvernig málið hefur þróast. Eins og ég hef farið yfir í ræðu minni hef ég mjög miklar áhyggjur af framhaldinu en ber enn þá von í brjósti um að hægt sé að koma því í rétt hjólför. Þingmenn úr öllum flokkum hafa lýst því yfir að þessi aðferðafræði og aðferð sé rétt, að reyna að ná sátt í málaflokknum, en þá verður að fylgja ferlinu allt til enda. Við verðum að fylgja hinum faglegu niðurstöðum og klára málið á þeim vettvangi en ekki með einhverjum pólitískum fingraförum.