141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið löng leiðin úr sæti mínu hingað í ræðustól og ég bið hæstv. forseta velvirðingar á hversu langan tíma það tók að koma mér hingað upp en (Utanrrh.: ... bíða mjög lengi.) Já, þakka þér fyrir hæstv. utanríkisráðherra sem sagðist mundu bíða eftir mér mjög lengi.

Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég verð að segja að ég tek undir mikið af þeirri gagnrýni sem þar kom fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann í framhaldi af gagnrýninni sem hún setur fram á rammaáætlunina og þær ógöngur sem þetta ferli er allt saman komið í. Hún talaði um að þetta væri rammaáætlun Vinstri grænna en ekki, eins og lagt var með í upphafi þessa verks fyrir allmörgum árum, leiðin til að sætta ólík sjónarmið og finna út í eitt skipti fyrir öll aðferðina við að flokka náttúruauðlindir okkar í nýtingar- eða verndunarflokk. Ég tek undir með hv. þingmanni og mér finnst athyglisvert að framsóknarmenn og minni hluti nefndarinnar, fulltrúi Framsóknarflokksins, leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Við sjálfstæðismenn fórum þá leið að við lögðum fram frumvarp, sem hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt að ræða samhliða þessu máli eða verið á dagskrá sem næsta mál því það tengist beinlínis. Í frumvarpinu leggjum við til að verkefnisstjórnin verði kölluð saman og henni falið að ljúka verkinu, að raða þessum kostum ekki bara eftir númerum heldur að flokka kostina (Forseti hringir.) í bið- eða verndarflokk. Ég vil biðja hv. þingmann um hennar skoðun á þeirri aðferð.