141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur vinnan við rammaáætlun staðið í 13 ár, að mestu í sátt og samlyndi. Framsóknarflokkurinn hefur komið mjög að því að taka ákvarðanir sem hafa lotið að því að skapa sátt, akkúrat eins og þingmaðurinn fór yfir. Sátt um hvað ætti að virkja, hverju ætti að hlífa og hvað ætti að friðlýsa, þannig að það sé sagt hér.

Við framsóknarmenn erum langþreyttir til vandræða og vorum að vonast til þess að ríkisstjórnin mundi reyna að sjá að sér og þess vegna leggjum við til að málinu verði vísað aftur til hennar. Því fylgir jafnframt að stigið verði skref aftur á bak og áætlunin færð til fyrra horfs, þannig að efnislega eru tillögur framsóknarmanna og sjálfstæðismanna eðlislega líkar. Tillaga sjálfstæðismanna er róttækari að því leyti að þar er beinlínis farið fram með tillögu að lagabreytingu. Það má vel vera að sú tillaga verði fyrir rest notuð eftir kosningarnar því ef fer fram sem horfir, að ríkisstjórnin ætli að taka þingsályktunartillöguna í gegnum þingið á minnsta mögulega meiri hluta (Gripið fram í.) og breyta henni með með fingraförum Vinstri grænna og jafnframt villikattanna þar innan borðs, þá verður að fara í það ferli að breyta lögunum og setja málið á upphafsreit. Þá er tillaga sjálfstæðismanna komin að fullu til framkvæmda, þá verður verkefnisstjórnin kölluð saman aftur. Hún er víðtæk og hefur breiða skírskotun og getur skapað aftur sáttafrið. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, því núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að átta sig á málinu. (Forseti hringir.)

Að lokum væri afar gott að þegar hæstv. utanríkisráðherra er hér í salnum hafi hann munninn kannski aðeins minna opinn.