141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hafði vænst þess að hæstv. umhverfisráðherra mundi hlýða mál mitt og þar sem hún hefur verið viðstödd umræðuna til þessa þá væri ágætt að fá að vita hvort hún muni hlusta því annars mundi ég geyma áfram það sem ég gat ekki rætt í gær þar sem enginn ráðherra var viðstaddur. Ég hafði hug á að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga.

Ég var að velta því fyrir mér áðan hvort ég gæti beint máli mínu til hæstv. utanríkisráðherra sem er fyrrum umhverfisráðherra síðan einhvern tímann seint á síðustu öld og hefur oft mikinn áhuga á að taka þátt í umræðunni, en þar sem hann er líka horfinn úr salnum þá held ég að ég verði að taka fyrir annað mál, af nógu er að taka. Ég geymi þá ræðu mína þar sem spurningarnar til ráðherranna koma, því ég hef aðeins fimm mínútur og það gengur nokkuð hratt á þann tíma.

Mér finnst tvennt hafa staðið upp úr í umræðunni til þessa, sem hefur verið góð og málefnaleg. Mér hefur þótt það nokkuð skýrt og það var kannski vitað fyrir að mjög ólík sjónarmið væru annars vegar hjá þeim sem bera fram þessa tillögu og síðan okkur í stjórnarandstöðunni, eða þá alla vega í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, varðandi hvort eðlilegt jafnvægi sé og hvort gætt hafi verið að því að ná þessari víðtæku sátt. Hugmyndafræðin á bak við rammaáætlunina var sú að reyna að ná sátt og það þýðir auðvitað að sjónarmið þeirra sem ganga lengst í þá átt að vernda allt og hins vegar þeirra sem ganga lengst í að nýta allt, sumir mundu kalla það öfgar, yrðu undir. Það yrði hin breiða miðja sem yrði niðurstaða þessa sáttmála.

Ég hef verið á þeirri skoðun að þarna hafi meiri hlutanum mistekist og meginþungi í þessari þingsályktunartillögu hafi orðið á vernd og bið og stöðnun. Síðan hefur mér fundist skorta verulega á umræðuna um hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulífið og hvaða efnahagsstefnu við ættum að hafa hér til lengri tíma. Ég hef til að mynda bent á skýrslu McKinsey-ráðgjafarfyrirtækisins sem greindi óumbeðið íslenskt efnahagslíf. Það bendir á að íslenski orkugeirinn, sjávarútvegsgeirinn, landbúnaður og ferðaþjónustan, sem byggja á nýtingu náttúruauðlindanna, væru þess eðlis að það væru atvinnugreinar sem stæðust alþjóðlegan samanburð. Þær gætu staðið undir hagvexti til lengri tíma og ef við nýttum auðlindirnar skynsamlega, auðvitað á sjálfbæran hátt, og gætum haldið áfram á þeirri braut sem við höfum verið á á síðustu áratugum — þá er ég ekki að tala um að byggja hér álver á fimm ára fresti eins og alltaf virðist vera stimplað á okkur sem tölum fyrir náttúrunýtingu, langt þar í frá. Það er einmitt hin breiða nýting, fjölbreytt atvinnulíf sem við höfum talið mikilvægast í þessu sambandi. Ég bendi á að í samanburði við til að mynda Noreg — ef ég man tölurnar rétt þá er atvinnulíf Norðmanna byggt á því að um 29% þess byggist á nýtingu náttúruauðlinda. Um 14% byggjast á svokölluðum alþjóðlegum samkeppnisfyrirtækjum. Á Íslandi erum við einungis með 12% í þeim geira sem er mun lægra heldur en t.d. Svíþjóð og Danmörk svo dæmi séu tekin, en nokkuð lík Noregi. Aftur á móti erum við með mjög stóran geira innan lands sem við tölum eiginlega aldrei um, geira sem framleiðir allt of lítið. Það er allur opinberi þjónustugeirinn, líka að hluta til minni fyrirtæki á Íslandi, þjónustugeirinn innan lands og hluti af ferðaþjónustunni. Þar er framleiðni allt of lítil, þar er arðsemin allt of lítil. Þetta hefur mér fundist skorta umræðu um í sambandi við rammaáætlunina.

Rammaáætlun er auðvitað grundvöllur þess að nýta náttúruauðlindirnar okkur til hagvaxtar, til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar, sem er svo mikilvægt. Þau sjónarmið sem meiri hlutinn leggur fram skortir og í rökræðunni sem hér hefur (Forseti hringir.) farið fram í umræðunni til þessa hefur enginn komið fram með nægilega skilmerkileg rök, (Forseti hringir.) að mínu mati. Ég hefði getað sætt mig við, í það minnsta, rök sem benda til þess hvernig (Forseti hringir.) menn ætla að byggja upp hagvöxtinn í landinu.