141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt rætt það þegar ég hef komið hingað í ræðustól í þessu máli. Þá hef ég bent á að mér finnist það mjög sérkennilegt að ríkisstjórnin og meiri hlutinn vari mjög við vatnsaflsvirkjunum og leggi meiri áherslu á umhverfisvernd en minni áherslu á efnahagslega og samfélagslega þætti. Mér finnst að það sé ójafnvægi í þessum þáttum og hef alveg skilning á þeim rökum. Ég tel að menn séu komnir of langt þar. Það er merkilegt að það skuli síðan verða niðurstaðan í þingsályktunartillögunni að þeir hafni vatnsaflsvirkjunum, sem við þekkjum nokkuð reynsluna af og eru undirstaðan í raforkukerfi okkar. Orkustofnun bendir einmitt á að það þurfi að vera ákveðið jafnvægi þarna á milli vegna þess að jarðvarmavirkjanirnar séu allt annars eðlis á meðan vatnsaflsvirkjanirnar skaffi okkur rafmagn frá fyrstu stundu í nokkuð stöðugu magni. Það er mjög merkilegt að það skuli síðan hafi síðan orðið niðurstaðan að það séu fyrst og fremst jarðvarmavirkjanir í þingsályktunartillögunni.

Að setja virkjunarkost í nýtingarflokk þýðir ekki að hann verði nýttur. Það var nú eitt af því sem ég ætlaði að spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í, þ.e. hvernig umhverfisráðherra litist á að skipta biðflokknum upp í tvo flokka, sérbiðflokk, sem væri rannsóknarbiðflokkur eða biðflokkur til nýtingar sem auðveldara væri að fá fjármuni í, og svo annan biðflokk sem yrði mjög stór og mundi auðvitað hafa yfirbragð geymslustofnunar. Ég held að það sé afleiðing þess þegar menn byrja að véla um alla mögulega (Forseti hringir.) og ómögulega hluti og sitja síðan uppi með eitthvað sem enginn ætlaðist til upphaflega, það sé niðurstaða þessa plaggs.