141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er ófögur lýsing sem hv. þingmaður les upp úr nefndaráliti meiri hlutans um málið. Ég segi enn og aftur að það að flokka kosti í nýtingarflokk þýðir ekki að viðkomandi virkjunarkostur verði nýttur, hann verður hins vegar rannsakaður meira en ella, m.a. þeir þættir sem hv. þingmaður nefnir.

Ég held að þingmaðurinn hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að meiri hlutinn hefði fengið samviskubit þegar hann sá í hvaða óefni var komið eftir að vera búinn að véla um málið í nær tvö ár, að þá hafi menn uppgötvað að niðurstaðan væri þeim alls ekki að skapi og hafi fengið samviskubit yfir því. Þess vegna sé sett eitt og annað í tillöguna til að reyna að draga úr áhrifum þess að leggja fram þingsályktunartillögu með þeim ósköpum sem hv. þingmaður lýsti að gæti gerst.

Aðalatriðið er að það er ójafnræði á milli þessara þátta. Búið er að fara um plaggið pólitískum höndum. Ég held að að einhverju leyti byggist niðurstaðan á heift síðustu ára gagnvart vatnsaflsvirkjunum, til að mynda gegn Kárahnjúkavirkjunum. Hins vegar er rétt að minna á það varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, sagði að hann teldi skynsamlegra að virkja neðri hluta Þjórsár en að virkja inni á hálendinu af því að rennslisvirkjanir væru í byggð, en nú er búið að henda þeim virkjunum út.

Vissulega eru verulegar umhverfisraskanir af völdum vatnsaflsvirkjana en þær eru þekktar þegar virkjunin er byggð og við þekkjum reynsluna af þeim. Þess vegna segi ég enn og aftur að (Forseti hringir.) ég hefði talið að meira jafnræði á milli þessara kosta, vatnsaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana, væri líklegra til sátta (Forseti hringir.) og ég hvet meiri hlutann til að skoða það áður en við afgreiðum málið.