141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:57]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hafði ætlað mér í þessari ræðu að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanríkisráðherra, sem var iðnaðarráðherra í ágúst 2007 þegar verkefnisstjórn um rammaáætlun, sú sem þá skipuð, tók sæti í 2. áfanga rammaáætlunar. Mig langar að vita hvort hæstv. forseti geti upplýst mig um hvort hæstv. utanríkisráðherra sé hér í húsi svo ég geti beint til hans spurningum.

(Forseti (ÁÞS): Óskar þingmaðurinn eftir hæstv. utanríkisráðherra?)

Já, hann var hér í húsi áðan og ég ætlaði að beina til hans ákveðnum spurningum.

(Forseti (ÁÞS): Forseti mun kanna hvort hægt sé að hafa samband við hæstv. utanríkisráðherra.)

Kærar þakkir.

Árið 2007, þegar 2. áfangi rammaáætlunar fór af stað og verkefnisstjórn var skipuð, var hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og á stórum fundi í Þjóðmenningarhúsinu var verkefnisstjórnin skipuð. Þar hélt hæstv. ráðherra ágætisræðu um með hvaða hætti hann teldi að vinnan mundi fara fram. Kjarnann í því sem ráðherrann talaði um sjáum við í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar, en þar kemur fram að ríkisstjórnin hafi einsett sér að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða og leggi því áherslu á að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra. Síðan kemur fram í skipunarbréfinu að verkefnisstjórnin skuli upplýsa iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og Alþingi reglulega um störf sín og — takið eftir — að hafa víðtækt samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila á starfstíma sínum, m.a. með kynningarfundum og sérstakri vefsíðu með upplýsingum fyrir almenning og hagsmunaaðila.

Áður en ég held lengra vil ég taka það sérstaklega fram að ég var skipuð í téða verkefnisstjórn. Ég reyni að byrja allar ræður mínar í málinu á því vegna þess að þær litast kannski örlítið af því að ég sat þar.

Þarna kemur sem sagt fram að verkefnisstjórnin átti að sinna þessu samráði og ég tel að hún hafi gert það. Ég tel að verkefnisstjórnin hafi sinnt því hlutverki sínu vel og að raunar hafi hún sinnt hlutverki almennt vel. Auðvitað takmarkast vinna verkefnisstjórnar af þeim tíma, fjármunum, tækjum og tólum sem hún hafði til vinnunnar. Í næsta áfanga mun vonandi verða þróuð enn betri aðferðafræði á grunni þeirrar aðferðafræði sem þegar hefur verið búin til.

Í erindisbréfinu kemur jafnframt fram að iðnaðarráðherra muni á grundvelli niðurstaðna skýrslu verkefnisstjórnar og að höfðu samráði við umhverfisráðherra verkefnisstjórnar leggja fyrir Alþingi fyrir lok ársins 2009 tillögu að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði. Það er það sem lagt var af stað með í upphafi.

Spurning mín, sem fram hefur komið í andsvörum í dag, er: Hvers vegna var breytt um kúrs í málinu? Á hvaða rökum var sú ákvörðun tekin að það samráð og það mikla kynningarferli sem verkefnisstjórnin réðist í á grundvelli þessa skipunarbréfs var ekki talið nægjanlegt? (SIJ: Góð spurning.) Hvaða rök lágu þar að baki? Hvaða sjónarmið voru það? Hefði það legið fyrir í upphafi að allt samráðsferlið yrði síðan á vegum ráðherra hefði verkefnisstjórnin hvorki þurft að eyða sínum tíma né fjármunum skattborgaranna í það samráðsferli sem hún stóð í eða eytt þeim mikla tíma sem í það fór.

Getur verið að þegar leið á vinnu verkefnisstjórnar og faghóparnir voru komnir vel áleiðis með störf sín hafi þeim, sem áttu síðan að taka við málinu og voru þá komnir í ríkisstjórn, ekki litist á hvert málið stefndi? Er það ástæðan fyrir því að gripið var inn í og ákveðið að fara með málið í þetta ferli? Mig langar svo að vita hvernig sú ákvörðun var tekin. Var samráðið sem verkefnisstjórnin sinnti ekki talið nægjanlegt? Var það ekki nógu vel gert? Hvers vegna var það ekki fullnægjandi? Ég tel að allir sem höfðu áhuga á því að koma sjónarmiðum sínum að hafi haft tækifæri til að koma þeim skilaboðum til verkefnisstjórnar, sérstaklega í ljósi þess að í skipunarbréfinu segir að það sé verkefnisstjórnin sem fara eigi með samráð og kynningar en ráðherra muni svo á grundvelli niðurstaðna verkefnisstjórnar leggja fram tillögu um rammaáætlun. Ég vonast svo sannarlega til að geta spurt hæstv. ráðherra að því seinna í umræðunni, þó að hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra, núverandi utanríkisráðherra sé horfinn á braut, að mér sýnist, (Gripið fram í: Flúinn.) eða kannski geta aðrir hv. þingmenn eða ráðherrar upplýst mig um hvernig það bar allt saman að.

Ég ætlaði nú ekki að eyða öllum dýrmætum tíma mínum í þetta mjög svo mikilvæga mál. Mig langar að beina máli mínu að nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og þá sérstaklega að þeim atriðum sem fram koma um það sem meiri hlutinn telur að næsta verkefnisstjórn eigi að hugsa um, eins hvað Alþingi og ráðherrar eigi að hugsa um fyrir næstu verkefnisstjórn, væntanlega með tilliti til þess að breyta þeirri lagaumgjörð sem í gildi er varðandi starf verkefnisstjórnar. Það kemur fram á bls. 13 og síðan í kafla 13, sem er á bls. 23 og áfram. Á bls. 13 er fjallað um álitaefni um orkunýtingu á háhitasvæðum. Þar segir að meiri hlutinn telji að næsta verkefnisstjórn skuli kanna sérstaklega þau varúðarsjónarmið sem fram koma í athugasemdum við tillöguna. Sérstaklega þurfi að horfa til neikvæðra áhrifa af völdum mengunar enda séu háhitasvæðin mörg sem um ræðir í nágrenni byggðar. Er því haldið fram af meiri hlutanum að verkefnisstjórnin sem skilaði af sér núna hafi ekki haft þau sjónarmið til hliðsjónar? Er þar með verið að segja það? Eru menn að segja að aðferðafræðin sem notuð hefur verið við rannsóknirnar sem fyrir lágu fyrir verkefnisstjórninni í þessum áfanga hafi ekki verið fullnægjandi að þessu leyti eða var það skoðun meiri hluta nefndarinnar að horft hafi verið fram hjá þeim sjónarmiðum? Mig langar afskaplega mikið til að vita það.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til miklar viðbætur, að gerð verði sérstök rannsókn á Reykjanesskaga af hálfu ríkis, sveitarfélaga, orkufyrirtækja og náttúruverndarsamtaka þar sem kanna skuli möguleika á orkunýtingu, áætlaðar þarfir útivistar og ferðamennsku. Hvað er átt við? Er átt við að þeir aðilar vinni á sinn kostnað einhverja úttekt sem hafa eigi sjálfstæða þýðingu? Er það ekki akkúrat það sem verkefnisstjórnin hefur verið að gera? Auðvitað takmarkaðist vinna okkar varðandi útivistarmöguleika o.s.frv. við þá fjármuni og tíma sem við höfðum í verkefnisstjórninni. Faghópurinn stóð sig gríðarlega vel í málinu og þróaði aðferðafræðina mun lengra en ég þorði að vona á þeim tíma sem við höfðum. Er kannski átt við að áður en næsta verkefnisstjórn taki til starfa og taki Reykjanesið til skoðunar eigi þessir aðilar að vera búnir að gera einhverja sjálfstæða rannsókn á Reykjanesskaganum? Hver á að greiða fyrir það? Hvernig á það svo að falla inn í það sem verkefnisstjórnin á að gera? Síðan kemur fram í nefndarálitinu að menn séu með miklar athugasemdir við það að þeir sem ætla sér að nýta orkuna eða hafa hag af svæðinu leggi fjármuni inn í þessi verkefni. Mér finnst það einhvern veginn vera í andstöðu við það sem áður var sagt. Ég skil ekki alveg hver stefnan á að vera og vona að einhver geti útskýrt það fyrir mér.

Ef við vindum okkur aðeins í kafla 13, þar sem eru fjölmargar ábendingar til næstu verkefnisstjórnar, og horfum sérstaklega á bls. 24–25, velti ég fyrir mér hversu flókið það verður allt saman. Ég er fylgjandi því að hér sé bent á það sem betur má fara, mér finnst það gott og það er þarfur texti. Hann kveikir 150 spurningar í mínum huga og ég á 23 sekúndur eftir þannig að (Gripið fram í.) mér finnst að mér hefði átt að vera úthlutað extralöngum ræðutíma fyrir mínar mörgu spurningar en ég vonast til þess að koma þeim að einni og einni í einu á þeim litla tíma sem ég á eftir fyrir þriðju ræðu mína. Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.