141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þær virkjanir sem hv. þingmaður vísar til tel ég að fullnægjandi rannsóknir liggi fyrir. Ég held að Þjórsárvirkjanir séu þeir virkjunarkostir sem hvað mest eru rannsakaðir af öllum þeim virkjunarkostum sem fyrir lágu við vinnu málsins. Það er svar mitt.

Eins og ég sagði í fyrstu ræðu minni í gær þá kaupi ég ekki alveg þau rök að þessir sex kostir séu fluttir í biðflokk á grundvelli vöntunar gagna. Ég tel að það sé pólitískur leikur að gera það. Það er það sem ég tel vera að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir að við sjáum ýmis pólitísk fingraför á vinnu sem við vorum öll búin að tala okkur saman um að ætti að vera byggð á faglegum grunni, og ekki bara við heldur stjórnmálamenn fyrri tíma allt frá því að sú vinna fór af stað og þá sérstaklega eftir áherslubreytinguna 2007. En það eru fleiri kostir. Ég hugsa að hv. þingmaður hafi jafnframt verið að vísa til Hágönguvirkjana og Skrokkölduvirkjana, en þar er annar rökstuðningur fyrir því að þær eru teknar úr nýtingarflokki og settar yfir í biðflokk, sagt er að rannsaka eigi nánar einhvers konar „buffer zone“ í kringum Vatnajökulsþjóðgarð. Ég kaupi ekki heldur þau rök vegna þess að ég tel að við eigum að taka ákvörðun og ég tel að það hefði átt að koma fram í þeirri tillögu sem hér liggur frammi hvort þessir kostir ættu að fara í nýtingu eða vernd. Ég tel að fullnægjandi upplýsingar liggi þar fyrir. Ég tel að verkefnisstjórnin hafi fjallað um svæðið, ekki bara um einstaka virkjunarkosti og það afmarkaða landsvæði sem virkjunin sjálf stendur á, heldur um svæðið. Við sjáum það t.d. í umfjöllun í faghópi 1. Síðan tel ég að verkefnisstjórnin hafi jafnframt litið mjög svo til áhrifa á víðerni. Ég tel ekki að hið nýja hugtak, „buffer zone“, muni breyta neinu varðandi niðurstöðuna á svæðinu.