141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:11]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að ræða um hversu vel rannsakaðir virkjunarkostir eru til að mynda í neðri hluta Þjórsár. Eins og ég nefndi áðan er hv. þingmaður þingmaður Suðurkjördæmis og þekkir þess vegna örugglega vel til atvinnumála í því kjördæmi.

Ljóst er að með því að færa þessa virkjunarkosti úr nýtingu í bið verður lengri bið á því að við förum að framleiða raforku, m.a. úr þeim virkjunarkostum sem eru í Þjórsá. Hv. þingmaður er m.a. þingmaður Reykjaness þar sem mesta atvinnuleysi er á landinu. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi þá kynnt sér ályktanir sveitarfélaga í kjördæminu sem mótmælt hafa þessu, ég efast svo sem ekkert um það, og hvað sé í raun hægt að gera til að vinda ofan af þeirri stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur markað sér. Hv. þingmaður var hér brosandi og bjartsýn í gær á að mögulega mundi nást einhver lending í málinu og hvatti til þess að gert yrði hlé á umræðunni, þá væntanlega með það að markmiði að færa virkjunarkostina aftur í nýtingarflokk úr biðflokknum, eins og helstu sérfræðingar okkar hafa lagt til.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvort hv. þingmaður sé enn jafnbjartsýn á að við náum einhverri lendingu því að nú er liðinn sólarhringur frá því að ég átti orðastað við hv. þingmann. Þess vegna væri forvitnilegt að heyra, í ljósi þess hversu mikla þekkingu hv. þingmaður hefur á málinu, hvort einhverjar óformlegar viðræður hafi átt sér stað á milli þingmanna, kannski ekki úr ræðustólnum heldur á göngunum, sem gefi til kynna að við getum haldið sömu bjartsýninni og hv. þingmaður var uppblásin af í gær.