141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:14]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svo erfitt að vera svona bjartsýnn en ég ætla samt að leyfa mér að vera það áfram af því að ég trúi á að við getum hafið stjórnmálin upp úr hinum pólitíska leik eins og lagt var upp með í upphafi. Ég trúi því. Það er bara eitt sem þarf til, það er vilji. Vilji er allt sem þarf, vilji til að standa við þau orð að við ætlum okkur að ná hér samkomulagi um rammaáætlun sem byggð er á faglegum forsendum. Ég trúi því enn að það sé fólk í öllum flokkum sem deilir þeim skoðunum með mér og öllum þeim hv. þingmönnum, núverandi og fyrrverandi, sem sagt hafa að þeir hafi trúi á þessari aðferðafræði og telji að íslenskir stjórnmálamenn ráði við að hugsa um eitt mál, þó að það væri ekki nema eitt mál, á annan hátt en önnur mál sem afgreidd eru í þessum sal, sérstaklega á jólaföstunni.

Ég held að við ættum að gera hlé núna á umræðunni fara að ræða þau mál sem varða einhvers konar tímafresti, vegna þess að áramót eru að nálgast, og reyna frekar að átta okkur á því hvernig við komum málinu í réttan farveg. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram tillögu um með hvaða hætti við sjáum það fyrir okkur. Nú eru liðnar nokkrar vikur frá því að það mál kom fram en það hefur ekki fengið miklar undirtektir hjá öðrum flokkum. En ég tel að þetta sé hægt. Vilji er allt sem þarf og við skulum reyna að ræða málið í bakherbergjum þegar fundinum verður frestað.