141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, hv. þingmaður misheyrði ekki og misskildi mig ekki. En það sem gerðist var að samráðið sem ráðherrarnir höfðu, sem er vissulega lögbundið, kom ekki til fyrr en löngu eftir að verkefnisstjórnin var tekin til starfa og lögunum var breytt. Þetta kom inn í lögin vorið 2011, ef ég man rétt.

Hvers vegna var þetta sett inn í lögin? Hvers vegna var það ákvörðun stjórnarmeirihlutans og þeirra sem lögðu fram það frumvarp að taka þetta skref þegar augljóst var þegar málið var sett af stað og skipunarbréf verkefnisstjórnar var gert að ráðherrann ætlaði sér að leggja fram þingmál, tillögu að rammaáætlun byggða á niðurstöðum skýrslu verkefnisstjórnar?

Miðað við hvernig málið var lagt upp í upphafi þá er það verkefnisstjórnin sem átti að hafa samráð og ráðherrann að leggja málið fram. Síðan þegar málinu vindur fram og það kemur inn í þingið í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna þá kemur þetta til.

Ég er ekki að mótmæla því að þegar Alþingi fær mál fari það í umræðu og hefðbundið ferli, ég er að spyrja: Hvers vegna taldi stjórnarmeirihlutinn það nauðsynlegt að ráðherrarnir létu fara fram samráðsferli þegar augljóst var í upphafi þegar málið var sett af stað að verkefnisstjórnin átti að viðhafa það ferli?