141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í samráðið. Við förum yfir það hér á eftir. Við erum alveg á sömu blaðsíðu þar, við þurfum bara að lesa saman hvenær lög voru sett, hvenær þeim var breytt o.s.frv.

Varðandi spurningar mínar um ábendingarnar þá var ég sérstaklega að tala um það sem kemur fram á bls. 13. Ég var að velta fyrir mér hvort meiri hlutinn teldi að verkefnisstjórnin hefði ekkert horft til þessara varúðarsjónarmiða, hvort meiri hlutinn teldi að það hefði algerlega vantað að menn veltu því fyrir sér, en auðvitað var það ekki þannig. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að hægt er að rannsaka þessa hluti svo miklu betur. Eins og kom fram í ræðu minni þá komumst við í verkefnisstjórninni ákveðið langt á grundvelli þeirra gagna sem hægt var að afla, sem voru til og á þeirri tækni sem var til þegar við unnum þessa vinnu, en tækninni fleygir fram. Verkefnisstjórnir framtíðarinnar munu væntanlega vera með miklu sterkari og betri gögn, en engu að síður þurfum við að taka ákvarðanir.

Ég tel að í upphafi hafi allir haldið að einhverjir kostir færu í vernd og nýtingu, en ég taldi persónulega að biðflokkurinn yrði miklu stærri vegna þess að við erum auðvitað að taka stórar ákvarðanir og margir þingmenn hafa bent á að þótt kostur lendi í nýtingarflokki samkvæmt þessari rammaáætlun, verði hún að veruleika, þá sé ekki þar með sagt að farið verði að virkja hann á morgun því að það er svo margt eftir. Það er hægt að afla enn frekari upplýsinga sem þarf áður en framkvæmdaleyfið o.fl. verður gefið út. Vissulega er hægt að rannsaka alla hluti miklu betur, en spurningin er bara: Hvenær er komið nóg til að kostur geti farið annaðhvort í nýtingarflokk eða verndarflokk? Lögin sem þingið samþykkti þegar verkefnisstjórnin var að ljúka sinni vinnu (Forseti hringir.) — það er gallinn í þessu ferli — takmörkuðu það, (Forseti hringir.) sögðu sérfræðingar ráðuneytanna, hversu margir kostir færu í biðflokk.