141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Herra forseti. Við ræðum um rammaáætlun. Þetta er að verða löng og mjög fín umræða. Margar athyglisverðar ræður hafa verið fluttar og hefur verið fróðlegt að hlýða á þær. Í umræðunni endurómar það mikla ákall sem borist hefur frá fólki í öllum flokkum um mikilvægi þess að við leitum leiða til að ná breiðari sátt um málið en náð hefur verið.

Ég sagði í andsvörum í gær, og það fór fyrir brjóstið á einhverjum, að ég hefði ekki fundið fyrir miklum vilja í starfi umhverfis- og samgöngunefndar, sérstaklega ekki hjá talsmanni málsins, til að ná breiðri sátt um málið. Það væri miður vegna þess að þar er gríðarlega mikið í húfi. Eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem talaði á undan mér, hefur ítrekað sagt í ræðum sínum, held ég að það sé möguleiki og forsendur til að ná breiðari sátt um málið en hér er gert. Ég lýsti því í nefndaráliti og í fyrri ræðum að ég hefði áhyggjur af því að við værum einungis að fjalla um rammaáætlun til sex mánaða eins og málið er unnið og eins og það birtist okkur í umræðunni. Við erum einungis að fjalla um rammaáætlun fram yfir næstu kosningar. Þess vegna hefði verið skynsamlegast að taka málið aftur til inn og reyna að ná um það breiðri sátt og hefja síðan umræðu um það á nýjan leik í þinginu.

Áður en málið kom fram voru margar fyrirsagnir í fjölmiðlum um að ríkisstjórnarflokkarnir væru að semja um það sín á milli og að um það væru skiptar skoðanir. Fjölmiðlar fjölluðu töluvert um málið. Fram kom í Morgunblaðinu 4. nóvember 2012 þar sem fjallað var um málið að einn þingmaður Samfylkingarinnar sagði að vinstri grænir hefðu sagt að þetta væri þeirra ESB og að þær breytingar sem gerðar hefðu verið frá hinni faglegu vinnu yfir í þá pólitísku væru til þess fallnar að kaupa stuðning einhverra ráðherra Vinstri grænna við málið. Það er miður þegar svo stór mál eins og Evrópusambandsmálið eru orðin skiptimynt í svona máli. Fjölmiðlar veltu því líka upp hvað nokkrir hv. þingmenn mundu gera í málinu, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Kristján L. Möller, Sigmundur Ernir Rúnarsson og fleiri sem lýst höfðu því yfir að þeir vildu fremur hina faglegu nálgun á málið.

Fram hefur komið í umræðum um málið að þessir þingmenn hafa lýst því yfir að þeir styðji nú málið. Það styður ummæli þingmanna Samfylkingarinnar um að þetta mál sé ESB Vinstri grænna. Að þarna væri um einhvers konar málamiðlun að ræða. VG mundi þá áfram veita ESB-málinu brautargengi og mundi ekki þvælast fyrir því eða fylgja eftir yfirlýsingum sem gefnar voru í sumar, m.a. af nokkrum hæstv. ráðherrum Vinstri grænna, ef Samfylkingin væri öll á málinu.

Mig langar að ræða tvö atriði í því sambandi. Þegar kemur að álitaefnum sem snúa að orkunýtingu á háhitasvæðum og komið hefur verið töluvert inn á, finnst mörgum það sérstakt í rammaáætlun og þeim breytingum sem gerðar hafa verið frá hinni faglegu nálgun að ekki sé horfið frá virkjunum á háhitasvæðum, frekar er horfið frá vatnsaflsvirkjunum. Í nefndaráliti meiri hlutans koma þó fram miklar athugasemdir við virkjanir á háhitasvæðum. Í löngum kafla, 10. kafla, í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað um háhitavirkjanir og hver staða þeirra sé.

Ég ætla að grípa niður í nefndarálitið, með leyfi herra forseta:

„Meiri hlutinn telur ástæðu til að næsta verkefnisstjórn kanni sérstaklega þau varúðarsjónarmið sem fram koma í athugasemdum við tillöguna ...“

Svo er fjallað um að loftmengun af völdum brennisteinsvetnis fylgi jarðvarmavirkjunum og að ástæða sé til að skoða sérstaklega möguleg áhrif slíkrar mengunar á umhverfi og heilsu manna. Meiri hlutinn telur alvarlega meinbugi á því að fjölga enn jarðvarmavirkjunum við þéttbýl svæði nema lausnir finnist til að draga verulega úr brennisteinsvetnismengun. Meiri hlutinn leggur líka áherslu á að frekari rannsóknir á örvaðri skjálftavirkni fari fram á vegum orkufyrirtækjanna, slíkar rannsóknar séu ávallt lagðar til grundvallar umhverfismati jarðvarmavirkjana. Meiri hlutinn telur að á meðan ekki finnast lausnir til að draga verulega úr brennisteinsvetnismengun frá jarðvarmavirkjunum sé óvarlegt að fjölga enn slíkum virkjunum í grennd við þéttbýli o.s.frv.

Það er skrýtið að þessi svæði skuli þá ekki hafa verið lögð til hliðar sem virkjunarkostir þrátt fyrir þessar röksemdir heldur er hætt við vatnsaflsvirkjanir sem miklu fleira liggur fyrir um í rauninni. Það styður enn frekar að þarna hafi verið um einhvers konar skiptimynt að ræða.

En það sem mig langar að koma inn á á síðustu mínútum ræðu minnar er skýrsla eða umsögn sem fyrirtækið Gamma gerði um breytingarnar þar sem m.a. var sagt að kostnaðurinn við breytingarnar á rammaáætlun væri um 270 milljarðar — 270 milljarðar. Á næstu fjórum til sex árum yrði 4–6% minni hagvöxtur og við mundum tapa um fimm þúsund ársverkum á þeim tíma.

Þeir sem mæla fyrir þessum breytingum verða auðvitað að rökstyðja ætlun sína því að við Íslendingar gerðum ráð fyrir því að fá tekjur af þessum framkvæmdum. 270 milljarðar eru gríðarlega há fjárhæð, fimm þúsund ársverk er há tala og það er slæmt að hagvöxtur minnki um 4–6%. Hvernig ætla menn að ná í tekjur með öðrum hætti?

Mér hefur fundist skorta á rökstuðning hjá þeim sem tala fyrir tillögunni og breytingunum, fyrir því hvernig ná á tekjum með öðrum hætti. Af hverju er mikilvægt að ná þeim með öðrum hætti? Vegna þess þær eru grundvöllurinn fyrir því að við getum veitt aukna fjármuni til grunnstoða samfélagsins.

Við erum núna með fjárlagafrumvarp til umræðu í þinginu þar sem verið er að ræða útgjöld ríkissjóðs. Gagnrýnin á fjárlagafrumvarpið er m.a. sú að þar sé verið að veita of mikla fjármuni úr ríkissjóði án þess að nægilegar aðgerðir séu á framkvæmdahlið eða fjárfestingarhlið, þ.e. það vantar eitthvað sem ýtir undir fjárfestingar. Menn tala um að frumvarpið sé verðbólguhvetjandi. Hvað gerist þá? Þá hækka lán heimilanna auðvitað og þá erum við komin í vítahring.

Menn verða að gera sér grein fyrir því að grundvöllurinn fyrir því að geta veitt áfram fjármuni eða aukið fjárveitingar inn í heilbrigðiskerfið hljóta að felast í því að við náum að auka tekjurnar með einhverjum hætti eða þá að við forgangsröðum og skerum niður á öðrum stöðum til að ná í þær. En það birtist því miður ekki í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þróun mála þegar kemur að samhenginu milli atvinnuuppbyggingar í samfélaginu og verðmætasköpunar, hvort sem það er verðmætasköpun í grænu hagkerfi, í örvandi og skapandi greinum eða í atvinnuuppbyggingu eins og þeirri sem byggir á auðlindanýtingu, sem byggir á því að nýta auðlindir landsins til verðmætasköpunar. Þarna er gert ráð fyrir því að 270 milljarðar tapist vegna þessara breytinga. Þá verða þeir sem mæla fyrir tillögunni að sýna fram á hvar fá á tekjur annars staðar. Ef ekki á að ná þeim með öðrum hætti er í rauninni sagt að ekki verði sama svigrúm til að veita fjármuni til grunnstoða samfélagsins.

Síðan er það vinnuþátturinn. Þarna er gert ráð fyrir því að það skapi um fimm þúsund ársverk á næstu fjórum árum.

Virðulegi forseti. Við höfum horft upp á það frá hruni, frá árinu 2008, að um sjö þúsund einstaklingar hafa flust af landi brott umfram þá sem flust hafa til landsins. Það er mesti brottflutningur af landinu síðastliðin 120 ár eða þegar 15 þús. Íslendingar fluttu til Vesturheims í lok 19. aldar. Nú gerum við ráð fyrir því að skapa fimm þúsund ársverk. Um sjö þúsund einstaklingar eru fluttir af landi brott. Ef við skoðun kostnað samfélagsins við að mennta og koma þessum einstaklingum út á vinnumarkaðinn má gera ráð fyrir því að hver grunnskólamenntaður einstaklingur kosti samfélagið um 15 millj. kr. og hver háskólamenntaður um 23 millj. kr., þannig að þau fimm þúsund ársverk sem við töpum á næstu fjórum árum eru þá fimm þúsund ársverk sinnum þessar 23 millj. því að við horfum upp á það. Þar af leiðandi hleypur tapið á tugum milljarða af þessum ársverkum ef við teljum með allt það sem við erum búin að fjárfesta fyrir í þessu fólki. Það skapar nú verðmæti í löndunum í kringum okkur en ekki á Íslandi. Þeim mun lengur sem þetta ástand varir þeim mun meiri líkur eru til þess að þeir einstaklingar sem fluttir eru af landi brott setjist að og flytji ekki aftur til Íslands. Við sjáum það víða í verktakageiranum þar sem mjög lítið er að gera. Við sjáum það í alls kyns iðngreinum, við sjáum það hjá arkitektum, verkfræðingum og fleiri stéttum. Það er alveg ljóst að sú fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin hefur að hluta til kynnt kemur ekki til móts við þá einstaklinga sem fluttir eru úr landi. Það eru tölur sem við verðum að taka inn í dæmið þegar við ræðum tap sem þarna verður. Það er auðvitað þeirra sem leggja tillögurnar fram að rökstyðja hvernig menn ætla að bregðast við því. Trúa menn því virkilega að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar muni á næstu fjórum árum skapa fimm þúsund ársverk? Það er alla vega alveg ljóst að þeir einstaklingar sem flust hafa úr landi, iðnmenntaðir og tæknimenntaðir og einstaklingar sem töpuðu vinnu sinni í hruninu, skapa ekki þau ársverk.

Ég held því að full ástæða sé til þess að við setjumst aftur yfir málið og vegum og metum ólík sjónarmið. Eðlilegast væri að fara til baka og koma málinu aftur í þann faglega farveg þar sem reynt var að sætta ólík sjónarmið, því að þær tillögur sem hér er lagt upp með sætta á engan hátt ólík sjónarmið. Þess vegna er veruleg hætta á því að rammaáætlunin sé einungis til sex mánaða og er það miður. Þess vegna væri skynsamlegast að vísa (Forseti hringir.) málinu aftur til ríkisstjórnarinnar og koma með það inn í þingið á nýjan leik með faglega áætlun sem byggir á (Forseti hringir.) nálgun allra sjónarmiða.