141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður situr í umhverfis- og samgöngunefnd og það er mat hans eftir að hafa verið þar á fundum að í raun og veru hafi lítill áhugi verið á frekari málamiðlun frá þeirri tillögu sem lögð var fram. Það kemur mér ekki á óvart. Það þarf ekki endilega að vera vegna stífni hv. þingmanna sem sitja í nefndinni heldur miklu frekar þeirrar stöðu sem málið var komið í.

Förum aðeins yfir bakgrunninn. Fyrir lágu eindregnir svardagar um það að tilteknir virkjunarflokkar, sem höfðu verið settir í drögunum að þingsályktunartillögunni inn í nýtingarflokk, þá á ég m.a. við neðri hluta Þjórsár, hefðu pólitískar afleiðingar í för með sér ef þeir yrðu í nýtingarflokki. Sömuleiðis lágu fyrir samþykktir frá flokksfundi VG um að verkefni þingmanna og ráðherra flokksins væri að fjölga í biðflokknum og verndarflokknum en fækka að sama skapi í nýtingarflokknum. Þetta var uppleggið þegar lagt var af stað. Svo fengum við að sjá þingsályktunartillöguna. Þá var búið að henda út sex virkjunarkostum, þar á meðal umræddum kostum í neðri hluta Þjórsár. Eftir stóðu þá tveir vatnsaflsvirkjunarkostir, sem í sjálfu sér voru mikilvægir og ágætir út af fyrir sig en voru ekki þeir stærstu í hópnum, en að öðru leyti jarðhitavirkjanir þannig að eftir var í raun ekki mikið svigrúm til að gera miklar breytingar. Niðurstaða nefndarinnar er sú að halda áfram með þessa tillögu en setja mjög skýran varnagla varðandi nýtingu á jarðhita sem er að mínu mati nánast algerlega útilokað. Það er því ekki bara búið að ákveða að henda út vatnsaflsvirkjunum heldur (Forseti hringir.) eru skilyrðin þannig að maður sér ekki í hendi sér að hægt verði að fara í allar þessar (Forseti hringir.) virkjanir að óbreyttu.