141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni og hefur komið fram hjá nokkrum hv. þingmönnum í stjórnarliðinu, m.a. hv. þm. Kristjáni L. Möller sem hefur farið vel yfir það í umræðum á þinginu hvernig ákveðnir virkjunarkostir hefðu einmitt farið í nýtingarflokk ef menn hefðu haft þetta að leiðarljósi eða sem rökstuðning á bak við niðurstöðuna.

Það sem menn gagnrýna auðvitað við lokaniðurstöðuna er þegar pólitíkin grípur inn í. Við sáum alveg hvenær það átti sér stað. Málið tafðist í gríðarlega langan tíma áður en það var lagt fram. Það komu samfelldar fyrirsagnir í blöðum um að samningar væru í gangi, ekki hefði tekist að semja um málið o.s.frv. Það tafðist um fleiri mánuði að málið kæmi fram en þá voru menn auðvitað að móta nákvæmlega hvernig það ætti að vera og þá var tekin ákvörðun, eins og hv. þingmaður bendir á í andsvari, um að eingöngu skyldi fært í eina átt, þ.e. úr bið í vernd og úr nýtingu í bið. Þetta er ástæða þess að við sitjum uppi með þessa tillögu. Þetta er að mínu mati ástæða þess að ekki var ráðist í breytingar í nefndinni. Þetta er líka ástæða þess að ég held að þessi rammaáætlun verði ekki langlíf.

Þetta kennir okkur að í svona málum, þegar við segjumst ætla að ná breiðri sátt, að þá verðum við auðvitað að gera það. Það er ekki nóg að segja það og láta aðdragandann miða að því þegar niðurstaðan verður síðan allt önnur.