141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðu hans. Hv. þingmaður talaði fyrir tillögu framsóknarmanna um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar til að vinna það betur.

Nú höfum við sjálfstæðismenn lagt fram þingmál um það með hvaða hætti við teljum að hægt sé að koma þessu máli á rétt ról. Ég vona að hv þingmaður hafi kynnt sér frumvarp okkar sem lagt hefur verið fram. Mig langar að spyrja hann hvort honum lítist á þá aðferðafræði sem þar birtist. Jafnframt vil ég biðja hv. þingmann að útskýra betur fyrir mér hvernig hann telji þá tillögu framsóknarmanna að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar ganga upp. Hvernig sjá framsóknarmenn fyrir sér ferlið á því máli? Við gerðum þá hlé á þessari umræðu, vísuðum málinu til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin mundi þá vinna málið — hvernig? Sú tillaga sem hér liggur fyrir kemur frá sömu ríkisstjórn og þingmaðurinn leggur til að fái málið aftur í sínar hendur. Mig langar að spyrja hv. þingmann, ef ég má vera svo djörf að koma með fleiri spurningar á þeim stutta tíma sem við höfum, hverja hann telji vera helstu meinbugina á því að þetta mál verði afgreitt eins og það liggur fyrir. Hver er grunnurinn að því að hv. þingmaður leggur fram og talar fyrir þeirri tillögu að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar?