141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að klára fyrirspurnina sem var í fyrra andsvarinu þá tel ég, eins og ég hef komið inn á, að sú tillaga sem hér liggur fyrir sé of fjarri þeirri vinnu sem verkefnisstjórnin lagði til. Ég vildi nálgast þetta eins og verkefnisstjórnin gerði þar sem allir aðilar gáfu eftir til að ná niðurstöðu. Þessi tillaga gerir ekki ráð fyrir því og þess vegna get ég ekki stutt hana. Við höfum því lagt til að henni verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar.

Hvað varðar seinni fyrirspurn hv. þingmanns, hvort þetta sé ESB-mál Vinstri grænna, þá eru það ummæli samfylkingarmanna að vinstri grænir hafi sagt þetta, ég ætla ekki að leggja mat á það en það liggur alveg ljóst fyrir að sá sem hér stendur hefur alltaf viljað að vinstri grænir stæðu í lappirnar í Evrópusambandsmálinu og það væri óskandi að svo væri. En auðvitað hlýtur svo að vera úr því að vinstri grænir gáfu það mál svona hressilega eftir gagnvart Samfylkingunni og hafa gert allar götur síðan. Samfylkingin hlýtur að hafa látið eitthvað á móti og allt bendir til að það hafi verið þetta mál. Það styður líka þá kenningu, þegar nokkrir hæstv. ráðherrar óðu fram á vígvöllinn í sumar og sögðu að nú væri kominn tími til að endurskoða Evrópusambandsumsóknina, að það hafi verið hluti af þessum samningum öllum saman. Ég ætla ekki að dæma um það. Engu að síður væri óskandi að Vinstri grænir mundu vakna úr þessu dái hvað varðar Evrópusambandsumsóknina og stæðu í lappirnar gagnvart Samfylkingunni því að það er ekkert að óttast. Meiri hluti þjóðarinnar (Forseti hringir.) styður það mál dyggilega og (Forseti hringir.) VG hefur því ekkert að óttast.