141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel að einhverjum hafi brugðið við að opna Fréttablaðið í morgun þar sem er að finna frétt um að hraðfara breytingar ógni tærleika Þingvallavatns. Ég kýs að fjalla aðeins um það hér.

Þar er vitnað til rannsókna sem vísa til aukinnar mengunar sem býr til kjöraðstæður í vatninu fyrir þörungagróður og ógnar þar með tærleika og bláma vatnsins. Þingvallavatn er ekki bara sérstakt á íslenskan mælikvarða, þetta stóra, kalda og djúpa vatn er einstakt á heimsmælikvarða vegna tærleikans en lífríkið er líka einstakt. Þingvallavatn hefur verið kallað „Galapagos norðursins“ vegna hinna fjögurra afbrigða af heimskautableikju sem þar er að finna auk urriðans og marflóa sem hvergi hafa fundist annars staðar.

Það eru fleiri hundruð sumarbústaðir allt í kringum Þingvallavatn. Þingvallanefnd tók frumkvæði að því á síðasta ári að rannsaka ástand rotþróa og vatnsupptöku í þjóðgarðinum, en þar eru tæplega 80 sumarhús. Þeirri athugun er að ljúka og það er rétt sem segir í því ágæta blaði, Fréttablaðinu, þar eru vísbendingar um að ansi margt megi betur fara.

Þingvallanefnd hefur nýlega borist fimm ára yfirlit yfir vöktun í Þingvallavatni á árunum 2007–2011. Þær niðurstöður sýna að vatnsgæði Þingvallavatns eru þrátt fyrir allt góð og sömu sögu er að segja um ástand lífríkis. En þó eru þar vísbendingar um ákveðnar breytingar. Ekki síst hefur hitinn í vatninu hækkað mikið og hefur það hitnað að meðaltali um allt að hálfa aðra gráðu yfir sumartímann og leggur nú sjaldnast á vetrum. Þingvallanefnd hefur skoðað niðurstöðurnar og leggur áherslu á samvinnu við sveitarfélög og umhverfisyfirvöld til að leita leiða til að vernda lífríki og tærleika Þingvallavatns.