141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú berast fréttir af því að ríkisstjórnin sé farin að skapa störf. Hæstv. velferðarráðherra boðaði 2.200 ný störf núna í vikunni. (Gripið fram í.) Hvort það (Gripið fram í.) er til viðbótar við þau 29 þús. störf sem mér telst til að hæstv. forsætisráðherra sé búin að lofa á kjörtímabilinu skal ég ekki segja um, hæstv. utanríkisráðherra, en þessi 2.200 störf fara kannski að nálgast það að dekka þau störf sem tapast hafa á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Ég get nefnt 250 hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp störfum núna nýlega. Punkturinn er þessi: Það er fínt að hæstv. ríkisstjórn taki höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins í þeirri viðleitni að leysa úr vanda þeirra sem lengi hafa verið í atvinnuleit.

Það sem ég hef áhyggjur af í þessum efnum er í fyrsta lagi hvort einhver verði störf til, vegna þess að við höfum heyrt þessi loforð áður. Þessi 2.200 störf eru ekki störf sem verða til vegna verðmætasköpunar í þjóðfélaginu. Það eru störf sem verða til á kostnað skattborgaranna. Það eru störf sem skapa á sem úrræði á kostnað skattborgaranna.

Ég vil gefa hæstv. ríkisstjórn ráðleggingu og þar með hæstv. utanríkisráðherra, sem ég sé að hlustar hér mjög gaumgæfilega: Látið þær atvinnugreinar vera sem geta plumað sig. Ef þær fengju að vera í friði eru þær tilbúnar að skapa miklu fleiri störf en þessi (Forseti hringir.) 2.200 störf. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra getur svo skapað störf við þýðingar í ESB-landinu sem hann vill búa í. Ráðleggingar mínar til hæstv. ríkisstjórnar eru: (Forseti hringir.) Látið atvinnulífið í friði. Þá mun það (Forseti hringir.) skapa störfin. Og ekki setja fötuna (Forseti hringir.) undir lekann, gerið við þakið.