141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með það mál sem ég tók upp og snýr að samskiptum einstaklinga við fjármálafyrirtækið Dróma. Fram hefur komið að hæstv. forsætisráðherra ætli að gera eitthvað í málinu og skoða það. Það þýðir í raun og veru ekkert annað en að það gerist ekki neitt. Ég hvet þá sem sitja í efnahags- og viðskiptanefnd og hv. formann nefndarinnar að taka þetta mál til meðferðar og fara sérstaklega yfir það þar því að þetta getur ekki gengið svona áfram.

Síðan langar mig að taka undir það sem kom fram hjá hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni sem var tekið upp undir liðnum störf þingsins í gær. Hrokafull framkoma hæstv. fjármálaráðherra gagnvart fulltrúum í fjárlaganefnd sem óska eftir upplýsingum er einsdæmi, eða ég hef ekki séð slíkt áður þann stutta tíma sem ég hef verið á þingi. Það er í raun og veru engin virðing borin fyrir þeirri vinnu sem fer fram í hv. fjárlaganefnd og ekkert gefið fyrir eftirlitshlutverki þeirra hv. þingmanna sem þar sitja. Það kemur mjög skýrt fram í þessu bréfi.

Ég vil líka koma inn á það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson tók upp hérna áðan, þá kúvendingu sem varð í sambandi við hugmyndir stjórnarmeirihlutans um byggingu nýs Landspítala. Nú á að tvískipta framkvæmdinni, annars vegar að fara svokallaða leiguleið, sem var upphaflega leiðin með alla framkvæmdina, og hins vegar ríkisframkvæmd. Einu upplýsingarnar sem við höfum fengið í hv. fjárlaganefnd um þetta er minnisblað sem var lagt fram á ríkisstjórnarfundi. Við höfum aldrei séð þetta minnisblað, aldrei nokkurn tíma. Það er bara vitnað til þess í nefndarálitinu að búið sé að taka kúvendingu í þessu máli en það liggja engin gögn eða neinar ástæður fyrir því hvers vegna það var ákveðið. Þetta er enn ein ástæðan til að staldra við í ljósi þessa bréfs hæstv. fjármálaráðherra til fulltrúa í fjárlaganefnd (Forseti hringir.) um upplýsingagjöf og skyldur ráðherra gagnvart Alþingi og þingmönnum.