141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar um spítalabygginguna og hvernig að henni verður staðið hvað varðar fjárlög íslenska ríkisins finnst mér rétt að vekja athygli þingheims á frétt frá því í dag um að veitt hefðu verið verðlaun Skúla fógeta á sviði hagfræðirannsókna sem fyrirtækið Gamma veitir. Rannsóknin sem fékk verðlaunin var um þjóðhagslega hagkvæmni Vaðlaheiðarganga. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er sú að þjóðhagslegt tap af þeirri framkvæmd megi áætla að verði um 4,3 milljarðar.

Nú er ég þeirrar skoðunar að byggja hefði átt göng undir Vaðlaheiði, en í þeirri röð sem lagt var upp með í samgönguáætlun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það hefði verið skynsamlegt. En það sem ég var ósáttur við og er ósáttur við og mun verða ósáttur við er að þessi framkvæmd skyldi vera kölluð einkaframkvæmd en alfarið fjármögnuð af ríkinu. (Gripið fram í: Rétt.) Það á ekki að halda þannig á málum í þinginu að kalla hlutina röngum nöfnum til að kippa þeim út úr því ferli sem búið er að ná samkomulagi um að eigi að hafa varðandi samgönguframkvæmdir.

Ég tel rétt að vekja athygli á þessu nú þegar verið er að ræða um Landspítalann og hvernig eigi að standa að fjármögnun þar. Það er oft haft á orði í þessum sal að menn þurfi að læra af reynslunni. Er ekki ástæða til þess að hlusta á þau varnaðarorð sem hafa komið hér fram hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir vara nú við þessari framgöngu allri og benda á veikleika í málinu?

Við munum brátt fara í gegnum 3. umr. (Forseti hringir.) um fjárlög. Þá gefst tækifæri til að fara í gegnum þetta og ég vona, virðulegi forseti, að sem flestir þingmenn taki þátt í þeirri umræðu.