141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Fjárlög koma og fara og það sama gildir um jarðgöng, en sumir hlutir eru þess virði að skoða þá miklu betur. Ég verð að segja fyrir okkur ráðherra sem sitjum hér á bekkjunum og hlustum á þingmenn undir þessum lið, jafnvel þá okkar sem eru fæddir bjartsýnir og vilja ekkert nema láta gott af sér leiða, að við getum hneigst til þunglyndis að sitja of lengi undir þessum ræðum. Þess vegna fagnaði ég ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem beindi sjónum þingsins að annars konar verðmætum en þeim sem mölur og ryð fá grandað.

Hún tók hér upp Þingvallavatn og þá staðreynd að Þingvallavatn, sem er ein mesta perlan í lífríki Íslands, kann að vera í nokkurri hættu. Hinn tæri blámi vatnsins er í hættu vegna þess að það virðist sem ekki sé gengið nægilega eftir því að reglugerðir um fráveitu frá sumarbústöðum sé fylgt. Það getur leitt til þess að litur vatnsins breytist vegna þess að næringarefni berast í of miklum mæli út í vatnið og til verður þörungablómi sem breytir litnum. Mér finnst þetta vera mál sem er þess virði að ræða hér og þingið láti líka til sín taka ef ekki hefur verið í gadda slegið með réttum hætti sá umbúnaður sem þarf til að vernda það vatn.

Sem betur fer er Þingvallavatn og meðferðin á því eitt af hinum litlu kraftaverkum í umhverfisvernd á Íslandi hin seinni ár. Til dæmis hefur tekist í góðri samvinnu við Landsvirkjun að breyta því hvernig miðlað var vatni úr Þingvallavatni með þeim afleiðingum að frægasti urriðastofn í heimi og sá stórvaxnasti hefur aftur risið til blóma sem er gersamlega óþekktur frá því löngu fyrir virkjunina. Það skiptir miklu máli og ég vildi greina þinginu frá því að margt hefur tekist vel. En það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir drap fingri sínum á er áhyggjuefni sem þingið ætti að láta til sín taka, (Forseti hringir.) en leyfa sér samt að vera bjartsýnt öðru hverju og hefja augu sín til himinsins.