141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er ágætt að heyra hæstv. utanríkisráðherra tala hér á bjartsýnum nótum um ýmis efni. Ég tók eftir því áðan þegar hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir ræddi um þau störf sem ríkisstjórnin gaf sig út fyrir að ætla að búa til, að þá kallaði hæstv. ráðherra fram í og reyndi að minna á störf Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, (Gripið fram í.) sem ber að sjálfsögðu að virða.

Ég held hins vegar að í ljósi umræðunnar og þess sem er að gerast að tilefni sé til að endurmeta hlutverk Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Í stað þess að hún einbeiti sér að því að þýða eitthvert regluverk sem enginn vill taka við fari hún í að þýða þau skilaboð sem koma frá almenningi í landinu til stjórnvalda. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Ég held að það væri verðugra verkefni og ekki jafnfjárfrekt og að þýða regluverkið frá Evrópusambandinu sem enginn vill sjá. (Gripið fram í.)

Af þessu tilefni mætti nefna við hæstv. ráðherra að það væri mjög æskilegt að Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins legði í það verk að þýða skilaboðin sem koma frá því fólki sem á í viðskiptum við Dróma. Það væri mjög gott. Það væri líka mjög æskilegt að Þýðingamiðstöð ríkisstjórnarinnar mundi þýða skilaboðin sem koma frá fiskvinnslufólki og sjómönnum um allt land. Þetta eru allt saman þættir sem núverandi hæstv. ríkisstjórn (Gripið fram í.) virðist ekki hafa nokkurn einasta skilning á. Ég treysti á atbeina hæstv. ráðherra sem þekktur er af mikilli atorku við að liðsinna þeim sem veikar standa. Ég held að það væri mjög þarft verkefni að hann einbeitti kröftum sínum að því að þýða þau skilaboð sem koma frá almenningi þessa lands til íslenskra stjórnvalda um betri afkomu, bætt lífsskilyrði. Það væri þarft verk.