141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:28]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Það er alltaf fróðlegt og athyglisvert að hlusta á hans nálgun í ýmsum málum og yfirleitt til þess að bæta umræðuna og dýpka. Það er svo í þetta sinn líka og þó að ég sé ekki sammála öllu sem hann segir eða nálgast er það málinu til bóta. Um margt hefur umræðan hérna verið alveg prýðileg.

Ég vildi vísa hér í orð formanns umhverfisnefndar frá því í umræðunum í gær. Auðvitað verður rammaáætlun utan um náttúruvernd og nýtingu aldrei pólitískur óskalisti einstakra þingmanna. Það má bera það saman við stjórnarskrána sem við erum að ræða líka, hún er ekki skrifuð út frá pólitískum óskalista eins eða neins. Þetta er málamiðlun. Ýmsu má breyta. Við þurfum að endurskoða aðferðafræðina. Formenn faghópa og verkefnisstjórnir hafa bent á hvernig við getum bætt og þróað aðferðina við að meta landgæði út frá ólíkum hagsmunum um nýtingu landgæða og náttúrugæða. Þetta eru stórkostlegir hagsmunir. Hvað við eigum að vernda og hvað við eigum að nýta, af því það er líka nýting á náttúrugæðum að vernda og halda náttúruperlum ósnortnum. Annars vegar út frá gildinu sem í þeim felst og hins vegar út frá aðdráttaraflinu í ferðaþjónustunni og ýmsu slíku.

Eins og ég hef sagt áður mundi ég vilja sjá margt öðruvísi í rammaáætlun. Ég held að það geti orðið meiri sátt um að breyta ekki tillögu verkefnisstjórnar, nema í sumum atriðum kannski. Það koma fram öflug rök til dæmis um að bíða með virkjun neðri hluta Þjórsár út af laxastofninum og rannsóknum á honum, en það skiptir ekki mestu máli. Burt séð frá pólitískum óskalistum okkar einstakra þingmanna ættum við að beygja okkur undir aðferðafræðina sem var samhljóða samþykkt á Alþingi árið 2011 og halda áfram að bæta verkferlið og endurskoða aðferðafræðina (Forseti hringir.) þannig að við getum náð enn þá meiri sátt um málið.