141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta mál er í ósáttaferli eins og hann orðaði það svo smekklega hérna áðan. Það er akkúrat rétta orðið yfir hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málunum. Hv. þingmaður er hagfræðimenntaður. Mig langar að spyrja hann aðeins út í afleiðingar af gjörðum Vinstri grænna, að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Ég sá skýrslu um mat ráðgjafarfyrirtækisins Gamma á því að færa þessa sex virkjunarkosti úr nýtingu í bið. Þar áætlaði það að á fjögurra ára tímabili mundi fjárfesting dragast saman um allt að 270 milljarða kr. vegna þessarar skiptimyntar sem þessir sex virkjunarkostir eru, á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.

Nú erum við nýlega búin að ræða um fjárlög fyrir árið 2013. Það er erfitt að koma þeim saman, sérstaklega því að tekjur ríkissjóðs eru svo lágar sem raun ber vitni. Nú er það ljóst að með þessari ákvörðun, samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu Gamma, er fjárfesting að dragast heilmikið saman miðað við það sem orðið hefði.

Ég spyr nú hv. þingmann hvort hann sé sammála fyrirtækinu í þessari greiningu, að ríki, sveitarfélög, séu að verða af tugmilljarða eða hundruðum milljarða kr. fjárfestingu sem hefði getað haft í för með sér auknar tekjur fyrir ríki og sveitarfélög. Að við tölum nú ekki um fyrir fyrirtækin í landinu og heimilin og fjölda starfa — hvort hv. þingmaður sé sammála ráðgjafarfyrirtækinu Gamma um þetta atriði málsins.