141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er nefnilega kjarni málsins að það sem okkur gengur til með þessari aðferð við að ráða úrslitum einstakra mála er að ná samkomulagi um hvernig það verður gert. Vel má vera að norska leiðin sem stóð til að fara frekar í upphafi, að hreyfa ekki við tillögum verkefnisstjórnarinnar, hefði skapað meiri sátt, að láta það alveg eiga sig í rauninni að kjörnir fulltrúar kæmu að málinu eins og mér skilst að hafi verið gert í Noregi.

Hins vegar eru lögin, sem voru samþykkt samhljóða 2011, þannig að þau gera Alþingi að eiga lokaorðið í þessu máli og koma að ákvörðuninni um það. Þess vegna er ekki hægt að líta fram hjá því að Alþingi ber að gera það hversu sátt eða ósátt við erum við niðurstöðuna, þó svo að við færum að þeirri tillögu sem þingmaðurinn nefndi, að vísa málinu aftur, þá kæmi sú tillaga svo hingað til lokaafgreiðslu. Ég er ekki sannfærður um að það bæti málið en það sem mestu skiptir er að ná bærilegri (Forseti hringir.) samstöðu, klára þetta og halda svo áfram að bæta aðferðina.