141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst mjög áhugavert að kalla fram þann punkt að með þeirri breytingu Vinstri grænna að færa sex vatnsaflsvirkjanir úr nýtingu yfir í biðflokk er verið að auka þrýstinginn á að ráðast í virkjanir á háhitasvæðum gríðarlega mikið. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að það er nær alveg hreint búið að rannsaka neðri hluta Þjórsár, vel að merkja er búið að hanna þar öll mannvirki fyrir þær þrjár rennslisvirkjanir sem eru í byggð, ef hann mætti velja á milli þess að ráðast í þrjár rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár eða fara á háhitasvæðin á Reykjanesskaga hvað yrði fyrir valinu? Telur hv. þingmaður að staðið hafi verið nægilega vel að verki, ég tel að svo sé, varðandi rannsóknir í neðri hluta Þjórsár? Hvaða þýðingu mundi slík innspýting hafa fyrir fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf?