141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla í ræðu minni að víkja að ákveðnum atriðum í þessari tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég mun sérstaklega halda mig við Norðurlandið og beina orðum mínum að jökulánum í Skagafirði og einnig minnast á Skjálfandafljót. Ég mun enn fremur beina orðum mínum að jökulánum almennt og mikilvægi þeirri, framburði þeirra og breytileika fyrir allt líf, bæði til lands og sjávar, bæði það sem er órannsakað og það sem vitað er um.

Jökulárnar eru mikilvægur þáttur í þeim endurnýjunarlífskrafti eða dýnamík sem lífkerfið við strendur landsins og ósa og inn til lands hefur sótt í, þær breytingar sem þessar jökulár taka þátt í. Við sjáum það á litnum, við sjáum það langt úti í sjó, úti fyrir ósum jökulánna, að sjórinn ber greinileg merki þess að þarna kemur fram mikið efni, þarna kemur margs konar framburður sem hefur mótað og viðheldur því lífríki sem þar er. Þetta er viðurkennt.

Eins og hér er rætt um er þessi tillaga til þingsályktunar, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, og felur í sér að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd eftirfarandi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt verndar- og orkunýtingaráætluninni, eins og stendur í upphafsorðum tillögunnar, verði tryggt að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið verði tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Áfram segir í upphafsgreinum þingsályktunartillögunnar:

„Í verndar- og orkunýtingaráætluninni skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.“

Þetta eru þær forsendur sem lagt var upp með og hefur verið gert ráð fyrir að vinna eftir.

Það hefur verið mín skoðun frá upphafi að þær áherslur sem eru í þessum markmiðssetningum hafi verið allt of hallar undir virkjunaráform, þ.e. að fyrst og fremst ætti að leita að virkjunarkostum. Að það að láta verndina og önnur sjónarmið sem geta ráðið því að við viljum vernda og varðveita þessar náttúruvættir okkar hafi strax í upphafsgreinunum ekki fengið þær áherslur sem ég hefði viljað sjá. En þannig fór þetta í gegn.

Ég vil þess vegna snúa mér beint að jökulánum í Skagafirði en í tillögunni er lagt til að jökulárnar í Skagafirði, Austari- og Vestari-Jökulsár, verði settar í svokallaðan biðflokk. Ég er ekkert hrifinn af þessu orði, biðflokkur, vegna þess að í textanum er látið liggja að því að hann sé biðflokkur til virkjunar. Ég hefði miklu frekar viljað sjá að þetta væri flokkur sem ekki væri gert ráð fyrir að ganga á.

Bæði með Villinganesvirkjun í Austari-Jökulsá og líka Skatastaðavirkjanir í vestari ánni gera einmitt þessar rannsóknir og þessar vísindalegu athuganir og þau matskenndu viðhorf sem koma fram, og eru forsenda fyrir röðun, einmitt ráð fyrir að þessar ár séu með þeim hætti að þær ættu að fara í verndarflokk. Hér er til dæmis sagt um Villinganesvirkjun að algjörlega sé óljóst hver séu áhrif stíflunnar í jökulánni við Villinganes á lífríki neðan árinnar, hvaða áhrif það hefur á lífríki fyrir ósum Héraðsvatnanna, það sé órannsakað. Það sem hefur legið fyrir er að Villinganesvirkjun fyllist af aur á kannski 60–80 árum. Ekki getur það talist vera sjálfbær virkjun og óafturkræf, alls ekki.

Hið sama er sagt um Skatastaðavirkjanir: Mikil náttúruverðmæti og óvissa um áhrif á lífríki flæðiengja nærri árósum. Vantar frekari upplýsingar. Verndargildi þeirra er talið mjög hátt.

Ég minni á í þessu sambandi að það er ekki aðeins í mati þeirra fagaðila sem hér áttu hlut að máli sem það er lagt til að þessar ár og virkjanir fari í verndarflokk, heldur hefur það líka verið afar sterk pólitísk áhersla, og ég tala nú ekki um frá þeim flokkum sem nú eru í ríkisstjórn.

Ég minni bara á að einum tvisvar til þrisvar sinnum á undanförnum árum hefur allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs borið fram tillögur til þingsályktunar um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði ásamt þverám þeirra.

Friðlýsingin taki til vatnasviðs ánna að meðtöldum þverám og skal hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum ánna vera óheimil. Skal svæðið friðað og stjórnað til varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing vatnasvæðanna norðan Hofsjökuls geti tengst framtíðaráformum um Hofsjökulsþjóðgarð og fallið að stækkuðu friðlandi Þjórsárvera sunnan jökulsins.“

Þetta er tillögugreinin, herra forseti, sem við höfum ítrekað borið fram á Alþingi. Og við skyldum halda að þetta hefði líka notið öflugs stuðnings frá hinum ríkisstjórnarflokknum, Samfylkingunni, sem gaf stefnu sínu út í sérstöku plaggi sem heitir Fagra Ísland og var notað í kosningabaráttu Samfylkingarinnar 2007. Það er margt mjög gott í því plaggi og ég vildi óska þess að Samfylkingin hefði lagt þetta fram af heilum hug. Ég veit að einstaklingar þar inni hafa gert það en þeim pólitíska stuðningi sem mér finnst að hefði þurft að vera, og speglaðist á sínum tíma, hefur ekki verið fylgt eftir. Hér segir berum orðum, með leyfi forseta:

„Samfylkingin vill:

1. Tryggja rétt náttúruverndar í skipulagi og við landnýtingu.“

Síðan er ítrekað að gera rammaáætlun og taldir upp áherslupunktarnir. Sá númer eitt er:

„Stækka Vatnajökulsþjóðgarð þannig að hann feli í sér Langasjó og allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.“

Það er mjög gott mál. Punktur númer tvö, algjört forgangsatriði líka:

„Stækka friðlandið í Þjórsárverum í samræmi við tillögu Umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn.“

Mjög gott mál líka. Og punktur númer þrjú, þetta eru þrír megináherslupunktar sem eru líka í Fagra Íslandi:

„Tryggja friðun Skjálfandafljóts, Jökulsánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.“

Þetta eru þau meginatriði sem lögð voru upp í stefnuskrá þess flokks sem nú myndar einnig ríkisstjórn með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það kemur mér því mjög á óvart að jökulárnar í Skagafirði fá það faglega mat, af þeim aðilum sem þar voru að vinna, að þær eigi að fara í verndarflokk og hinar pólitísku áherslur eru á sama veg af hálfu þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn og ég veit að í öðrum flokkum á Alþingi eru einstaklingar sem um margt eru sömu skoðunar. Ég leyfi mér að spyrja hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar: Úr því að allir aðilar, hinir pólitísku og faglegu aðilar, voru með það sem sitt megináherslumál að jökulárnar í Skagafirði færu í vernd, hvers vegna var það þá ekki gert? Ég fagna því að vísu að ekki er gert ráð fyrir að þær fari í beinan virkjunarkost, það er mjög gott.

Ég geri mér grein fyrir því að um þetta eru skiptar skoðanir, bæði heima í héraði og annars staðar. En ég hygg þó að meginþorri Skagfirðinga vilji hafa jökulárnar sínar í þeirri mynd sem þær eru.

Það eru ekki aðeins þeir þættir sem lúta að mati á þeim kostum sem verkefnisstjórnin lagði upp með sem skipta máli, það er líka hið óbeina mat, hið óbeina gildi. Héraðsvötnin hafa til dæmis þá stöðu í Skagafirði og dýnamík þeirra, flóðin, framburðurinn — þetta er hluti af því sem við að minnsta kosti köllum og viljum hafa sem Skagafjörð. Hver hefur ort fegurra til síns svæðis en gert er í Skín við sólu, Skagafjörður? Þá eru það Héraðsvötnin sem fyrst og fremst breiða sig út með fjallahringinn í kring.

Þetta huglæga mat, þetta mat sem hver og einn ber í hjarta sínu, hefur líka gríðarlegt gildi. Eins og Stefán Vagnsson á Hjaltastöðum, sem dó 1963, yrkir um Héraðsvötnin, kölluð Vötnin, með leyfi forseta:

Meðan „Vötnin“ ólgandi að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Hann gerir sér alveg grein fyrir því að Héraðsvötnin eru hvað þetta varðar lífæð Skagafjarðar á svo margan hátt.

Flest menningarlíf í Skagafirði og ljóð tengjast einmitt Vötnunum. Það er bæði að reiknuðu mati og huglægu mati sem menn bera miklar tilfinningar til Skagafjarðar og Skagafjarðardalanna og eru andvígir því að ráðist sé í virkjanir á því svæði. Þess vegna flyt ég hér tillögu inn í þessa umræðu um að virkjanirnar í jökulánum í Skagafirði verði settar í vernd í samræmi við hið faglega mat svokallaða, sem hér er lagt til grundvallar, og einnig hið pólitíska mat.

Ég legg líka áherslu á að hér hefur enn fremur verið flutt tillaga, sem liggur fyrir þinginu, um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er 1. flutningsmaður að. Þá er einnig gert ráð fyrir því að við Hofsjökulsþjóðgarð tengist svæðið norðan Hofsjökuls, þ.e. svæði uppsprettu jökulánna í Skagafirði, eða eins og segir í greinargerð með þeirri tillögu, með leyfi forseta:

„Nú er brýnt að halda verkinu áfram og sjá verða að veruleika Hofsjökulsþjóðgarð sem hefði innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi landsvæði sem sum hver eru þegar friðlýst eða á náttúruminjaskrá. Þar ber að nefna Þjórsárver, Kerlingarfjöll, Guðlaugstungur og Orravatnsrústir en við bætist önnur aðliggjandi svæði eftir því sem samkomulag tekst um þannig að úr verði sem stærst samfelld náttúrufarsleg heild. Í því sambandi verði meðal annars horft til Austari-Jökulsár og Vestari-Jökulsár sem hluta af þjóðgarðinum. Við vinnu að málinu verði ekki síst tekið mið af þeim svæðum umhverfis jökulinn sem þegar eru ákvörðuð sem þjóðlenda.“

Það er afar sterk sýn og vilji til þess að taka á þessum málum frá annarri hlið.

Þá vil ég örstutt koma inn á Skjálfandafljótið sem við höfum líka flutt tillögu um að verði friðlýst. Það er tillaga sem var flutt síðast á árinu 2009–2010 um friðlýsingu Skjálfandafljóts og alls vatnasviðs þess ofan Mjóadalsár en þar voru flutningsmenn hv. þingmenn Þuríður Backman, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Davíð Stefánsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Björn Valur Gíslason. Áður höfðu flutt sömu tillögu, auk þeirra sem þarna eru nefndir, Atli Gíslason, Árni Þór Sigurðsson, Guðmundur Magnússon, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. — Þau hafa öll áður flutt þessa tillögu.

Þetta er líka nefnt í ritinu Fagra Ísland þannig að hinn pólitíski vilji til að setja Skjálfandafljót í vernd hefði átt að vera fyrir hendi. Jökulár hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir hið síkvika líf, bæði í ánum sjálfum, við ósa þeirra og til sjávar. Skemmst er að minnast deilnanna sem urðu um stóru þriggja gljúfra stífluna í Kína sem ógnar nú fiskimiðum í öllu Austur-Kínahafi vegna þess að framburður þeirra fljóta var stöðvaður og safnast nú upp. En með því að flæða út í hafið, úr Gulafljótinu og út í hafið, stöðvaðist stór hluti af þeirri endurnýjun sem þarf að vera og lífið hafði lagað sig að á aðliggjandi hafsvæðum.

Þess vegna hefur þar orðið veruleg breyting á lífríki og það er það sem ég segi að ógni bæði samsetningu og stærð og vexti og viðgangi fiskstofna á stórum hafsvæðum.

Jökulárnar okkar, sem við höfum hér, eru líka snar þáttur í þessu sama lífríki, í kringum og við strendur landsins. Við vitum það ekki allt og við munum aldrei vita allt í þeim efnum. Látum þá náttúruna njóta vafans. En við vitum að þetta hefur gríðarleg áhrif og þess vegna eigum við að vernda og friða jökulárnar.