141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

lengd þingfundar.

[13:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér liggur fyrir dagskrá með 23 málum og ekki vanþörf á að halda vel á spöðum til að ljúka þeim og öðrum málum sem við þurfum að afgreiða fyrir jól.

Ég tel að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hafi verið hér allan þann tíma sem óskað hefur verið eftir, að undantekinni einni klukkustund um miðja nótt þegar upplýst var að hæstv. ráðherra væri að fylgjast með útsendingu þó að ekki væri hún hér í salnum, svo það sé sagt.

Í öðru lagi vita þingmenn og hv. þm. Illugi Gunnarsson mætavel að hv. þm. Mörður Árnason, sem er framsögumaður þessa máls, er erlendis á vegum þingsins, er að sinna þingstörfum. Þannig er það oft (Gripið fram í.) og um marga og það getur ekki komið í veg fyrir að aðrir þingmenn sinni sínum skyldum á þessum stað á heimalandinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)