141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég deili áhyggjum hans hvað varðar það að verði þessa þingsályktunartillaga samþykkt verði hún ekki langlíf því þau stjórnvöld sem taka við á hverjum tíma geta breytt henni ef markmiðin sem var lagt upp með nást ekki. Það segir kannski allt um málið að nú þegar hafa tveir hæstv. ráðherrar mælt fyrir tillögunni. Fyrst mælti þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra fyrir henni og þá fór hún til atvinnuveganefndar og í framhaldi af því hæstv. umhverfisráðherra en þá fór tillagan til umhverfis- og samgöngunefndar. Með fullri virðingu fyrir öllu því fólki sem situr í báðum þessum nefndum þá sést þetta kannski best þarna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hlut sem hann kom inn á í ræðu sinni og snýr að því að taka út rennslisvirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir og halda inni virkjunum á háhitasvæðunum, og um þann þrýsting sem mun þá skapast við að fara í þær virkjanir umfram aðrar, því það er eini kosturinn ef menn ætla að fara að virkja á annað borð. Þegar maður les meirihlutaálitið frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd eru að mínu mati færð fyrir því mun sterkari rök að færa virkjanir á háhitasvæðunum yfir í biðflokk á móti vatnsaflsvirkjunum en samt sem áður er það ekki gert.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þegar rökstuðningur meiri hlutans er lesinn bendi hann í raun og veru akkúrat á að það ætti að fara í þveröfuga átt en hér er gert sem kannski er þó meiri samhljómur um innan þingsins, að hlífa akkúrat þeim virkjunum sem eru á háhitasvæðunum. Samt sem áður er þetta gert svona hjá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.