141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef stjórnvöldum væri í raun alvara með að fara í atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík með tilheyrandi virkjunarframkvæmdum liggur það að sjálfsögðu í hlutarins eðli, rétt eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefnir hér, að einhverjir fjármunir væru þá í fjárlögum til sveitarfélagsins vegna þess að það þarf að fjárfesta alveg heilmikið í innviðum á því svæði. Það hlýst gríðarlegur kostnaður bara af mannvirki tengdu orkuflutningi og það er kannski þess vegna sem menn hafa á undangengnum árum horft til stóriðnaðar á Bakka, þ.e. að landa stórum verkefnum þar því að slík verkefni gætu staðið undir því að reisa flutningsmannvirki vegna orkuflutnings af Þeistareykjasvæðinu og niður á Bakka.

Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á liggur það nú fyrir að ríkisstjórnin áætlar ekki mikla fjármuni í að byggja þá innviði upp. Það rýrir kannski trúverðugleik þess að menn ætli að standa í lappirnar og nýta þær orkuauðlindir sem eru í Þingeyjarsýslum til atvinnuuppbyggingar þar, rétt eins og við framsóknarmenn höfum talað fyrir í mjög mörg ár.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það styttist í kosningar og vonandi verður ný ríkisstjórn með nýjar áherslur tekin við á vordögum. Þá munum við vonandi geta staðið í lappirnar og haldið áfram, þ.e. stuðlað að mjög kröftugri atvinnuuppbyggingu á Húsavík. Til þess þarf náttúrlega ákveðna fjármuni og fjárfestingu, það þarf að aðstoða heimamenn í því verkefni og það er þá trúlega verkefni nýrrar ríkisstjórnar að verja fjármunum í það.