141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Áður en ég fer að fjalla efnislega um málið langar mig að segja að ég hef ekki náð að fylgjast nægilega vel með þessari umræðu. Ég er hér í fyrstu ræðu minni og hef því miður ekki haft tök á því að fylgjast eins mikið með og ég hefði viljað. Ástæðan fyrir því er sú að við höfum verið að vinna að nefndaráliti fjárlagagerðarinnar og verið upptekin við það fram á nótt undanfarna daga. [Kliður í þingsal.] — Farið þið fram. [Hlátur í þingsal.]

Okkur var tjáð að 3. umr. fjárlaga ætti að fara fram í dag en af því varð ekki. Ég hafði nú ekki gert mér grein fyrir því fyrr en þingfundur var boðað í gær eftir kvöldmatarhlé. Ég hef því ekki getað fylgst nægilega vel með umræðunni en það kom fram í máli hv. þingmanna hvar sem þeir standa í flokki að hún hefur verið málefnaleg og farið vel fram. (Gripið fram í.) Ég hefði svo sannarlega viljað að svo hefði líka verið í þeirri umræðu sem við áttum um fjárlögin þar sem einungis örfáir stjórnarliðar sáu sér fært að taka þátt.

Það sem ég ætla að segja í upphafi máls míns, ef ég sný mér að því sem við erum að ræða, er að auðvitað lýsi ég yfir miklum vonbrigðum með að frumvarpið sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins mæltum fyrir og liggur núna inni í hv. umhverfis- og samgöngunefnd skuli ekki vera afgreitt út þótt það hafi verið til meðferðar á sama tíma og þetta mál hér. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með það því að í frumvarpinu er lagt til að halda áfram á þeim grunni sem var upphaflega reist á, þ.e. að fela í raun og veru verkefnisstjórninni að raða niður í þá flokka sem við ræðum hér, hvort sem það er nýtingarflokkur, biðflokkur eða verndarflokkur. Því miður er það ekki gert og mjög dapurlegt að málið skuli vera fast í nefndinni og í raun óskiljanlegt.

Ef maður fer aðeins yfir þessa tillögu verð að segja að ég hef miklar áhyggjur af því að þau markmið sem var stefnt að í upphafi muni ekki nást fram vegna þess að næst þegar verður kosið munu þau stjórnvöld, eða þau sem starfa á hverjum tíma segja: Við erum ekkert bundin af þessari niðurstöðu. Það hefur komið mjög skýrt fram af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins að þar sem málið fer í þennan farveg erum við algjörlega óbundnir af þeirri niðurstöðu sem birtist hér. Þetta er því í raun og veru rammaáætlun núverandi stjórnvalda. Markmiðið var auðvitað allt annað. Það var að leiða saman hópinn þannig að við gætum komist að sameiginlegri niðurstöðu um það hvað við gætum verið sátt með og ekki væri verið að breyta því á hverjum tíma. Það er fyrirséð að mínu mati.

Þegar rökstuðningur meiri hlutans er skoðaður staldrar maður við það sem ég hef komið lauslega inn á í andsvörum, röksemdafærslu meiri hlutans fyrir því að færa þessar sex vatnsaflsvirkjanir, þá virkjunarkosti sem þar eru, úr virkjunarflokki í biðflokk. Ég ætla helst að staldra við þrjár í þessari ræðu og kem væntanlega inn á aðrar í seinni ræðum um málið.

Ég er að ræða virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Að mínu mati væri í raun og veru skynsamlegt að fara í tvær efri virkjanirnar. Í röksemdafærslu meiri hlutans er vísað til áhrifa á laxastofninn en auðvitað eru miklu minni áhrif af efri virkjunum tveimur en þeirri neðstu, Urriðafossvirkjun. Það eru færð fyrir því ítarleg rök og þó svo að ég sitji ekki í hv. umhverfis- og samgöngunefnd eða hv. atvinnuveganefnd, sat ég fundi sem varamaður þegar málið var inni í atvinnuveganefnd síðastliðið vor. Á þá fundi komu gestir, annars vegar þeir sem gerðu athugasemdir og höfðu uppi varnaðarorð gagnvart því sem snýr að laxastofnunum og hins vegar þeir sem komu frá Veiðimálastofnun.

Mitt mat eftir þá fundi og eftir að hafa hlustað á gestina var að mér fannst rök Veiðimálastofnunar, sú vinna og þær vísindarannsóknir sem þar lágu að baki mun sterkari en rök þeirra sem vildu fara hægar í að virkja efri virkjanirnar tvær í Þjórsá. Það er ekki þar með sagt að ég hafi metið það rétt, það er bara mín persónulega skoðun. Þess vegna er svo dapurlegt að fara að endurraða því með pólitískum fingraförum.

Ég held að hv. þingmenn sem munu styðja þetta mál spyrji sig þeirrar spurningar sem blasir við. Með því að taka þessa virkjunarkosti út eru nánast engar vatnsaflsvirkjanir inni nema stækkun á Blöndulóni sem er óveruleg og síðan Hvalárvirkjun sem er ekki raunhæf nema fara í mjög miklar niðurgreiðslur á henni. Þá eykst auðvitað þrýstingurinn á að virkja á háhitasvæðunum. Ég hefði talið skynsamlegra að fara akkúrat hina leiðina. Í meirihlutaálitinu kemur fram það sem er flokkað sem álitaefni við orkunýtingu á háhitasvæðinu og mér finnst koma veigamikil og sterk rök fyrir því fara mjög varlega í þær háhitavirkjanir sem þó eru í nýtingarflokki.

Í andsvörum á milli tveggja hv. þingmanna fyrr í dag var það sem snýr að Hellisheiðarvirkjun og því sem gerðist þar rætt en samt leggur meiri hlutinn til að virkjanir á háhitasvæðinu verði í nýtingarflokki. Ég segi fyrir mitt leyti, virðulegi forseti, að röksemdafærsla meiri hlutans fyrir því að fara hægar í aðrar virkjanir og fresta og færa aðrar virkjanir sem snúa að vatnsaflinu úr nýtingarflokki og yfir í biðflokk, er ekki nógu sterk. Ég hefði einhvern veginn haldið eftir að hafa farið yfir nefndarálitið, og ég hef auðvitað ekki kafað djúpt í málið þar sem ég á ekki sæti í viðkomandi fagnefndum og er því aðeins að skauta á yfirborðinu, að rökin fyrir því að fara aðra leið væru sterkari.

Ef maður les umsagnir einstakra aðila, og ég hef farið yfir nokkrar hér, staldrar maður auðvitað við það sem kemur frá Orkustofnun. Þar kemur mjög skýrt fram að þeir komu allan tímann að þessari vinnu. Ég ætla að vitna orðrétt í umsögn þeirra til hv. umhverfis- og samgöngunefndar, með leyfi forseta:

„Það er mat Orkustofnunar að tillögur verkefnisstjórnarinnar beri að skoða sem heild. Orkustofnun gæti hafa komist að annarri niðurstöðu varðandi einstaka virkjunarkosti í vinnu verkefnisstjórnarinnar en taldi eðli málsins samkvæmt mesta hagsmuna fólgna í því að skapa skýra framtíðarsýn um verndun og orkunýtingu eins og sú tillaga gerir ráð fyrir. Þannig yrði lagður grunnur að stöðugu umhverfi fyrir atvinnuuppbyggingu á sviði orkuiðnaðar, ferðamála og annarrar landnýtingar.“

Það gefur augaleið en auðvitað skilur hv. ríkisstjórn það ekki, að til þess að ná einhverri sátt um mál verður að taka tillit til skoðana annarra. Það er grunnurinn að því og þessi texti segir manni það og staðfestir að verkefnisstjórnin og þeir sem störfuðu með henni nálguðust verkefnin þannig og þess vegna náðist þessi niðurstaða. Að mínu mati er mikilvægt að hafa náð niðurstöðu og að hætta að rífast um einstakar virkjanir. Eins og ég hef áður sagt hræðist ég að þetta verði rammaáætlun núverandi stjórnvalda og næstkomandi stjórnvöld, eða stjórnvöld á hverjum tíma, muni ekki taka mark á henni.

Síðan langar mig að koma aðeins betur inn á þær athugasemdir sem snúa að laxastofnunum. Auðvitað vakna spurningar í huga manns. Í röksemdafærslu meiri hlutans fyrir því að virkjanirnar eru færðar í biðflokk en ekki nýtingarflokk er ástæðan að í umsögn NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, er bent á að gæði gagnanna sem verkefnisstjórn hafði til hliðsjónar séu ekki fullnægjandi og það þurfi að gera betur. Að mínu mati er það dálítið sérkennilegt í ljósi þess að tvær efri virkjanirnar hafa auðvitað miklu minni áhrif á laxagengdina en neðsta virkjunin. Svo kemur líka fram, og það er kannski athyglisverður vinkill á málinu, að um 95–98% af laxinum í þessum ám eru veidd í net. Svo því sé haldið til haga, virðulegur forseti, er það einmitt Landsvirkjun sem hefur gert mjög miklar rannsóknir á þeim málum eða á áhrifum á laxastofnana í Þjórsá og hefur stuðlað að því með gerð laxastiga að stækka svæðið þar sem laxinn getur gengið upp á hrygningarsvæðið. Við vitum að þau eru yfirleitt í efri hluta árinnar af því að hætta er á að þau hrygningarsvæði sem eru neðarlega í ánum verði fyrir flóðum. Það hefur verið reynt í öllum laxveiðiám landsins í gegnum áratugina að koma seiðum upp fyrir ólaxgenga fossa til að rækta þau á svæðum þar sem eru minni áhrif af hlaupum vegna ísingar, eða hvernig sem það er. Efri hluti hverrar ár er því mjög mikilvægur í uppeldinu á laxinum.

Það vekur svo athygli að vísað sé til þess, og ég skal ekki vera svo ósanngjarn að halda því fram að það sé ekki líka vísað til þess þegar það er verið að fjalla um tvær neðri virkjanirnar, Urriðafossvirkjun og Hvammsvirkjun og þær tvær virkjanir sem þar eru, sem kemur fram í textanum um Urriðafossvirkjun.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki alveg samhengið. Hver er ástæðan fyrir því að meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að fara þá leið að setja þær sex vatnsaflsvirkjanir sem eru mest rannsakaðir í bið? Ég held að við séum nú öll sammála um að við vitum meira um áhrifin af vatnsaflsvirkjunum en virkjunum á háhitasvæðum. Samt sem áður eru þessar virkjanir teknar úr nýtingarflokki og settar í bið en virkjanirnar á háhitasvæðinu, sérstaklega á Reykjanesskaganum og á fleiri stöðum, eru áfram í nýtingarflokki. Það hlýtur að vera eðlileg spurning til meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Síðan getur maður auðvitað spurt sig að því sem kom fram hér áðan um til að mynda jökulárnar í Skagafirði. Nú eru þær þannig að maður hefði talið að með því að skoða gögn málsins frá verkefnisstjórninni yrðu þær friðaðar og væru í verndarflokki en þær eru engu að síður í biðflokki. Svona spurningar vakna þegar menn fara yfir tillögurnar. Er ástæðan kannski sú að hrossakaupin hafi átt sér stað við ríkisstjórnarborðið? Maður tekur auðvitað eftir því að þegar tveir hæstv. ráðherrar eru búnir að raða þessu saman er engu breytt. Akkúrat ekki neinu. Það er nákvæmlega sama sem kemur frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og það hefur meira að segja mátt skilja það á máli sumra hv. þingmanna, sem eru reyndar ekki staddir hér í dag, að það væri alveg skýlaus krafa að því yrði ekki breytt í meðförum þingsins.

Er það virkilega svo? Maður trúir því ekki og verður auðvitað að neita að trúa því. Spurningin sem ég hef verið að spyrja er hver ástæðan sé fyrir því að augljósustu kostirnir, ef menn ætla á annað borð að reisa þessar vatnsaflsvirkjanir, fara úr nýtingu í biðflokk á sama tíma og meiri hlutinn leggur til að fara í nýtingar á háhitasvæðunum. Það mun auðvitað þýða að það verður mun meiri þrýstingur á að virkja á þeim stöðum. Það eru einu kostirnir sem eru í boði miðað við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi og ég hef einhvern veginn skynjað í þessari umræðu að sé þvert á flokka þar sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa kannski meiri efasemdir heldur en hitt. Ég hef getað skilið það svo á þeim ræðum sem ég hef hlustað á.

Ég segi fyrir mig persónulega að ég hef miklu meiri áhyggjur af því að virkja meira á háhitasvæðunum en til að mynda af þeim tveimur virkjunum sem ég nefndi sérstaklega. Það er mín skoðun og mér liði betur ef það væri svo. Að mínu mati hefði verið skynsamlegra að fara þá leið sem við höfum lagt til, þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, að fela verkefnisstjórninni að raða beint inn í þá flokka sem hér eru, þ.e. verndun, nýtingu og biðflokk og gera það á þann hátt að það yrði að minnsta kosti tekið alvarlegt tillit til þeirra sjónarmiða ef verkefnið væri þannig, þótt í raun og veru sé ekki hægt að skuldbinda hv. þingmenn til þess að fara algjörlega eftir því. Rammaáætlun eins og hún er núna verður rammaáætlun núverandi stjórnvalda og engra annarra og það liggur auðvitað fyrir í þeim yfirlýsingum sem hafa komið fram hér.

Síðan er mjög merkilegt að lesa til að mynda umsögn Landsvirkjunar. Ég get alveg sagt það að við höfum fengið forsvarsmenn Landsvirkjunar á fund hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins til að fara yfir þessi mál fyrr í vetur. Ég verð að viðurkenna að þeir forustumenn sem þar eru alla vega núna eru mun hógværari en sá er hér stendur í sambandi við að nýta orkuna. Í umsögn þeirra segir, og með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að vitna orðrétt í hana:

„Við undirbúning þingsályktunartillögunnar gerði Landsvirkjun meðal annars athugasemdir um þessi atriði með bréfi dagsettu 9. nóvember 2011. Hvorki var tekið tillit til þeirra athugasemda né fjallað um þær í greinargerð við tillögunni.“

Fólk og stofnanir eru farin að upplifa það að þó svo að gerðar séu athugasemdir eða tillögur sé í raun og veru ekki tekið mark á þeim. Samt sem áður kemur það fram seinna í þessari ítarlegu umsögn Landsvirkjunar þar sem er tekið mark á hinu gagnstæða. Það er ágætt því það virkar nefnilega í báðar áttar, t.d. til þeirra aðila, eins og kom fram í andsvörum í morgun, sem héldu því fram að það mundi engin áhrif hafa þegar var farið í Hellisheiðarvirkjun, en reyndin er önnur.

Reyndin er nefnilega önnur og það hræðir mig töluvert frá þessum háhitavirkjunum. Við verðum auðvitað líka að gera kröfur til þeirra sem hafa varað við, þótt ég sé ekki að tala um gagnvart Hellisheiðarvirkjun í þessu tilfelli heldur gagnvart öðrum framkvæmdum, hvort heldur sem er brúargerð yfir Gilsfjörð eða annað þar sem menn hafa verið með spádóma sem ekki gengu eftir. Við verðum að gera kröfu til beggja sjónarmiðanna um að tekið sé mark á þeim.

Það er mjög athyglisvert og við erum meðvituð um það að virkjanirnar í Þjórsá sem eru teknar úr virkjunarflokki og settar í biðflokk eru mest rannsakaðar, þær eru komnar lengst í undirbúningi og öðru og eru langhagkvæmastar. Eftir að hafa lesið nefndarálit og rökstuðning meiri hlutans vantar mig rökin fyrir því af hverju það er gert en virkjanirnar á háhitasvæðinu skildar eftir í nýtingarflokki. Í raun og veru er þá aukin pressa á að virkja á háhitasvæðunum í stað þess að fara í hinar virkjanirnar. Það er augljóst að það gerist.