141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Þó að við köllum þetta andsvar er ég mjög sammála þessari nálgun hjá hv. þingmanni. Við heyrum núna dag eftir dag hversu mikill ágreiningurinn er um afgreiðslu þessa máls og það er von mín að forustumenn ríkisstjórnarinnar og forustumenn stjórnarandstöðunnar setjist niður og ræði hvort möguleiki sé að ná samstöðu um það.

Þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það virðist hins vegar ekki vera mikill vilji fyrir því. Þá er spurning hvort hægt sé að ná einhvers konar samstöðu um málið meðan það er í þinginu þannig að við náum að klára rammaáætlun til framtíðar.

Mér hefur verið bent á í þessari umræðu um rammaáætlun og virkjunarkostina að við höfum kannski ekki rætt hér um ýmsa aðra möguleika, t.d. að nýta þær virkjanir sem nú þegar eru til staðar til að framleiða meiri orku til að geta farið í þá (Forseti hringir.) atvinnusköpun sem ég veit að við hv. þingmaður erum svo sannarlega sammála um að nauðsynlegt sé að fara í.