141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir mjög málefnalega ræðu og ég vil lýsa yfir ánægju með þann tón sem kom fram í máli hans, tón sátta. Mér finnst að hv. þingmaður komi inn í umræðuna með það að markmiði að reyna að ná sáttum um þennan mikilvæga málaflokk, rétt eins og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt til, en því miður virðist vera erfitt að ná stjórnarliðum að því borði.

Ráðgjafarfyrirtækið Gamma lagði mat á hvað það þýddi að sex virkjunarkostir sem okkar færustu vísindamenn höfðu lagt til grundvallar að yrðu í nýtingarflokki, voru færðir yfir í biðflokk og efnahagslegar afleiðingar þess. Fyrirtækið mat það sem svo að á árabilinu 2013–2016 hefði það í för með sér lægri fjárfestingu upp á 270 milljarða króna. Það má áætla að ef við yrðum ekki af þeirri fjárfestingu mundu tekjur ríkissjóðs aukast um tugi milljarða sem og tekjur sveitarfélaga.

Nú situr hv. þingmaður í hv. fjárlaganefnd og er því vel kunnugur stöðu ríkissjóðs og mig langar því að ræða efnahagslegan vinkil og hagsmuni ríkissjóðs í þessu samhengi. Það er jú enn ein mælieiningin sem menn þurfa að setja á vogarskálarnar, hagsmunirnir sem hér eru undir, og að setja þá fjárfestingu sem við verðum af á þessu árabilinu í samhengi við erfiða stöðu ríkissjóðs. Ég held að það væri gagnlegt fyrir umræðuna.