141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvaða þýðingu innspýting á þessu ákveðna svæði hefði, þá hefði hún auðvitað gríðarlega mikil áhrif og mundi skapa störf og vinnu en einnig miklu meiri áhrif en það.

Ég hef starfað töluvert lengi í pólitík, þó að ég hafi ekki setið lengi á hinu háa Alþingi. Ég man eftir fundum í gamla Vesturlandskjördæmi þar sem alltaf voru lægstu launin, mesta atvinnuleysið, á Akranesi, alla tíð. Síðan varð uppbygging í stóriðjunni þar. Mér hefur oft fundist að umræðan um hana hafi stundum verið neikvæð; ég lít á þetta í raun og veru sem hátækniiðnað. Eftir að sú kjölfesta kom er þetta samfélag orðið eitt það sterkasta í gamla Vesturlandskjördæminu, en hafði verið það veikasta. Nú er þessi stóriðja undirstaðan og hryggjarstykkið í litlum fyrirtækjum um allt. Það er staðreynd. Innspýting í Suðurkjördæmi hefði auðvitað sömu áhrif á það landsvæði eins og hún hafði í gamla Vesturlandskjördæmi.