141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að umræðan hefur breyst og að við gerum okkur betur grein fyrir áhrifunum á náttúruna og mikilvægi þess að vernda hana. Þess vegna kom ég inn á það í ræðu minni að ég held að mikilvægt sé að við nálgumst verkefnið með því að ná einhverri samstöðu þannig að þetta verði ekki rammaáætlun núverandi stjórnvalda.

Þá er ég líka alveg sammála hv. þingmanni um það að við höfum betri upplýsingar til að taka skynsamlegri ákvarðanir. Þá staldrar maður við: Af hverju — og ég kom inn á það í ræðu minni — eru þessar vatnsaflsvirkjanir teknar? Ég nefndi sérstaklega tvær. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er ekki langt síðan að menn töldu sjálfsagt að fara í Urriðafoss. Ég staldra við það, en mín skoðun er sú að við eigum að fara í hinar tvær.

Þá er akkúrat settur þrýstingur á að fara í virkjanir á háhitasvæðum, þar sem ekki liggja fyrir eins góðar upplýsingar um hvaða áhrif þær hafa, og fara í þær allar eins og hefur verið sagt. Þegar maður skoðar þetta landfræðilega sér maður bara Reykjanesskaga, þar er hola við holu. Auðvitað er maður mjög hugsi yfir þessu. Ég kallaði eftir röksemdafærslunni því að ef þetta var ástæðan fyrir því að færa efri virkjanir Þjórsár í biðflokk þá fannst mér hið augljósa blasa við að hinar virkjanirnar ættu að vera þar líka ef meiri hlutinn væri algjörlega samkvæmur sjálfum sér.

Hv. þingmaður nefndi líka jökulárnar. Fram kemur að þær skora, ef ég má nota það orð, mjög hátt gagnvart því að fara í vernd hjá einmitt verkefnisstjórninni en þær eru samt í biðflokki. Ef ég hefði staðið á því að taka vinnu verkefnisstjórnarinnar hefði ég skuldbundið mig til (Forseti hringir.) að taka þær ár í vernd þó að ég hefði aðra skoðun á því og vildi nýta þær.