141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:35]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Við hv. þingmaður deilum áhyggjum af háhitasvæðum sérstaklega og ekki síst svæðinu á Reykjanesskaga.

Mig langar að koma að öðru sem hefur verið mjög áberandi í umræðunni almennt. Það er sú hugmynd að leyfa eigi miklu víðtækari rannsóknir í biðflokki. Mig langar að koma að varúðarorðum vegna þess ég er ekki viss um hversu mikið ég tek þátt í andsvörum síðar í dag eða í kvöld þó að ég muni að sjálfsögðu hlusta á allar ræður sem hér verða haldnar. Við erum akkúrat búin að skerða nær helming háhitasvæða á Íslandi sem eru öll með afar hátt verndargildi. Það að fara í svokallaðar rannsóknir á háhitasvæðum skerðir þau gríðarlega vegna þess að þá erum við að tala um boranir, þá erum við að tala um framkvæmdir, þá erum við til dæmis að tala um Þeistareyki þar sem allt hefur verið gert í þágu rannsókna (Forseti hringir.) og eftir það segja allir: Ja, það er hvort eð er búið að skerða þetta svæði, við setjum það bara í nýtingu. Þess vegna verður fólk að fara varlega í þessum efnum. Ég vil koma þessu að og heyra hvort hv. þingmaður er reiðubúinn að taka þetta upp í sínum þingflokki, til dæmis.