141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil segja að mér finnst til fyrirmyndar að hv. stjórnarliðar sem hér eru taki þátt í umræðunum. Ég held að þeir sem horfa á okkur hugsi: Þessir hv. þingmenn geta rætt málefnalega saman. Það færi betur ef við gerðum meira af því.

Hv. þingmaður segir: Er allt hér að springa af peningum? Já, hér er allt að springa af peningum. Það er bara þannig. Við erum með lífeyrissjóði sem við ætlum að nota til að greiða lífeyrinn okkar og þeir geta hvergi fjárfest. Við sjáum mörg bólueinkenni á þessum litla, lokaða markaði gjaldeyrishaftanna.

Við erum hins vegar með skuldsett orkufyrirtæki, í það minnsta sum, þrátt fyrir að allt bendi til þess að þau muni skila góðum arði. Við getum farið yfir það, það væri fróðlegt, af hverju þau eru svona skuldsett, í hvaða stöðu þau eru, ég hef miklar skoðanir á því, en látum það liggja á milli hluta.

Lífeyrissjóðirnir eru eign okkar allra. Mistökin sem þeir gerðu hérna fyrir hrun eru að þeir hefðu átt að fjárfesta nær eingöngu í útlöndum þannig að við værum ekki með öll eggin í sömu körfunni. Það er mín skoðun. Það sem kemst næst erlendri fjárfestingu er fjárfesting í virkjunum, nema við förum einhverja allt aðra leið, því að þær tekjur eru fyrst og fremst í erlendum gjaldmiðli. Ef við viljum leysa þetta þannig, og ég hélt að það gæti orðið góð sátt um það því að það er andstæðan við að einkaaðilar komi inn, þá gætu lífeyrissjóðirnir fjármagnað virkjanir og jafnvel átt þær. Það væri mun skynsamlegra en að þeir væru eins og fílar í postulínsbúð að fjárfesta hér á markaði.

Varðandi óvissuna um jarðvarmavirkjanir. Mér finnst að við eigum almennt að fara varlega, að við eigum að rannsaka hlutina vel, alveg sama hvort það eru jarðvarmavirkjanir (Forseti hringir.) eða vatnsaflsvirkjanir.