141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:12]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Raforkuframleiðsla Íslendinga hefur margfaldast á mjög stuttum tíma. Eins og hv. þingmaður veit þá búum við ekki við ótakmarkaðar auðlindir. Hér hefur meðal annars komið fram að nær helmingur háhitasvæða er nú þegar mjög skertur.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann áfram um er hvort hann telji efnahagslega ráðlegt, hyggilegt og skynsamlegt að hafa þetta eins og nú er, að um 80% raforkuframleiðslu okkar fari til stóriðju. Það hefur meðal annars komið fram í málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals, samflokksmanns hv. þm. Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að hann telji ekki skynsamlegt að setja svo mörg egg í sömu körfu.

Hverja telur hv. þingmaður raforkuþörf Íslands til framtíðar vera? Hvar eigum við að setja mörkin og segja: Nú er komið nóg? Hvernig á að skipta þessu milli stóriðju og almennra notenda og heimila eða til útflutnings? Telur hv. þingmaður til dæmis eðlilegt, eins og nýlega kom fram í fréttum, að almenningur greiði meðlag með stóriðju, þ.e. hækkun Landsnets og dreifikostnaður sem ekki er hægt að velta yfir á stóriðjuna vegna þess að hún er með allt sitt dekkað í samningum — að almenningur borgi brúsann? Telur hv. þingmaður það eðlilegt fyrirkomulag og réttlætanlegt?