141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt athygliverð. Hann beindi svolítið sjónum sínum að nefndaráliti frá 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, þingmanninum Ásmundi Einari Daðasyni, og svo fylgiskjali sem er í rauninni nefndarálit frá Sigurði Inga Jóhannssyni, eins og ég skil þetta, sem situr í atvinnuveganefnd þar sem þetta mál hefði væntanlega átt að vera til meðferðar.

Tillaga Framsóknarflokksins sem birtist mér í þessu nefndaráliti er sú að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Spurning mín til hv. þingmanns er: Hvað telur hann að ríkisstjórnin ætti að gera við þetta mál verði tillaga hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, og þá framsóknarmanna, að veruleika? Í nefndaráliti hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar kemur fram að það eigi að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar og meðal annars er minnst á nokkrar virkjanir sem þingmaðurinn telur þá vera í röngum flokki, t.d. Hólmsárvirkjun við Atley.

Síðan kemur fram í fylgiskjalinu frá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni að hann telur að biðflokkurinn þurfi að vera tvískiptur, biðflokkur sem er þá bara geymdar framkvæmdir, geymdar virkjunarhugmyndir, og svo biðflokkur til nýtingar sem er þá í rauninni eins og biðflokkurinn er núna, að menn megi rannsaka kosti og gera eitthvað.

Eru þetta samfelldar tillögur? Telur hv. þingmaður að verði tillagan samþykkt um að þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar muni ríkisstjórnin taka þetta mál, skipta biðflokknum upp í tvennt og flokka þetta sjálf í þessa flokka? Telur hv. þingmaður að það (Forseti hringir.) muni laga þetta mál?