141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir. Ég lít nú svo á að þeim hugmyndum sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom fram með innan atvinnuveganefndar á sínum tíma hafi verið hafnað, að sú tilraun til að hafa áhrif á framgang málsins með þessum hætti tilheyri fortíðinni og það sé tómt mál að tala um að sú lausn nái fram að ganga úr því sem komið er. Vegna umræðunnar fannst mér samt nauðsynlegt að benda sérstaklega á að við höfum í öllu þessu ferli frá því að málið kom inn í þing reynt að vera lausnamiðuð í því að velta fram hugmyndum um hvort bæta megi málið með einhverjum hætti með það að markmiði að ná þverpólitískri sátt um það, eins og ég veit að vilji hv. þingmanns stendur til. Hv. þingmaður hefur líka lýst yfir bjartsýni sinni um að gerð verði breyting á þessu máli og umræðunni um það frestað. En ég verð því miður að hryggja hv. þingmann með því að ég er ekki lengur neitt svakalega bjartsýnn á að við náum því fram, sama hversu gott við leggjum hér til málanna.

Sú hugmynd Ásmundar Einars Daðasonar að vísa málinu til ríkisstjórnar er einfaldlega sett fram í þeirri von að ríkisstjórnin sjái að sér og vinni á ný með niðurstöður og ályktanir verkefnisstjórnarinnar. Það er sem sagt búið að breyta um kúrs og færa þarna sex virkjunarkosti í vatnsafli yfir í biðflokk og kannski sér ríkisstjórnin að sér og setur þá virkjunarkosti aftur í nýtingarflokk. Það er að minnsta kosti mín von.