141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir hv. þingmaður engu að síður bjartsýnn ef hann telur að sú aðferð við afgreiðslu þessa máls skili þeirri niðurstöðu við seinni lesturinn að farið verði eftir röðun verkefnisstjórnar.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram þingmál sem felur í sér að verkefnisstjórninni sjálfri verði falið að flokka eins og kemur fram í skipunarbréfi hennar. Það sem gerist í ferlinu er að eftir að verkefnisstjórnin hefur hafið sína vinnu og þetta mál búið að vera í gangi lengi eru sett lög á Alþingi um hvernig verkefnisstjórnin eigi að skila sem breytir öllu.

Auðvitað er ekkert að því að vera bjartsýnn en ég tel að ef menn hér féllust á þessi rök yrði einfaldlega gert hlé hér á umræðunni, menn settust niður í sameiningu og lagfærðu málið. Eins og hv. þingmaður kemur inn á gengur á tímann í þessari umræðu og fæstir stjórnarþingmenn kjósa að blanda sér í hana þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar á netfjölmiðlum um að þeir ætli að vera hér milli jóla og nýárs — það væri bara allt í lagi að þeir væru hér núna til að taka þátt í þessari umræðu (Gripið fram í: Nákvæmlega.) — og ég tel að við séum að falla á tíma með þetta, því miður. Engu að síður á ég eftir að halda nokkrar ræður í þessu máli og mér heyrist að hv. þingmaður sé á svipuðum stað með það.

Þá skil ég hv. þingmann þannig að hann telji að tillaga hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar um tvo biðflokka sé í rauninni úti en hin tillagan eftir. Ég vil leyfa mér að segja að mér finnst þetta athygliverð hugmynd og ég hélt þegar ég sat í verkefnisstjórninni að biðflokkurinn yrði mun stærri og ef það ætti að vera biðflokkur til nýtingar væri hinn biðflokkurinn hugsanlega biðflokkur til verndar (Forseti hringir.) vegna þess að við hljótum að ætla að fara í báðar áttir, ekki bara í aðra.