141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á áðan er gott að vera bjartsýnn og við skulum reyna að halda í einhvern vonarneista, að eitthvað rætist úr þessu máli. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það kemur mér verulega á óvart að stjórnmálaflokkur eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem kennir sig við náttúruvernd, skuli ekki eiga fleiri talsmenn í þessari umræðu.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur þó staðið sig hér með sóma, setið undir ræðum okkar og farið í andsvör og við höfum átt í ágætum skoðanaskiptum. Hið sama er ekki hægt að segja um marga aðra innan stjórnarliðsins, því miður. Ég hélt að þetta væri málaflokkur sem brynni mjög á flokksfélögum hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem stendur hér dyggilega vaktina, eins og ég sagði áðan. Líka spyr maður sig: Hvar eru talsmenn græna netsins innan Samfylkingarinnar? Það fer ekki mikið fyrir þeim en mér finnst að þessi umræða eigi það skilið, í ljósi þess að við erum að gera tilraun til að móta framtíðarfyrirkomulag í þessum málaflokki til næstu áratuga, að velflestir þingmenn leggi eitthvað til málanna en því er ekki að heilsa.

Ég er nú með mína þriðju ræðu og vil meina að ég hafi ekki endurtekið mig mikið hvað þessi mál varðar. Þetta er gríðarlega umfangsmikið mál og mjög lítill tími sem maður hefur til að fjalla um einstaka efnisþætti þess. Við hljótum að vera sammála um það, við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki eins og hefur komið hér fram, að æskilegt væri að fleiri stjórnarliðar kæmu til umræðunnar til að eiga í skoðanaskiptum um þennan mikilvæga málaflokk.