141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég geld nú varhuga við útvíkkun af því tagi sem hv. þingmaður nefndi, að verkefnisstjórn eigi að meta hvern einasta bæjarlæk til framtíðar þegar kemur að virkjunum, jafnvel bara litla heimarafstöð.

Maður veltir fyrir sér á hvaða leið við erum í því og mig langar að spyrja hv. þingmann sem átti orðastað við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um þessi mál: Hversu langt eru menn komnir í hugsunum um þetta? Hversu umfangsmikið verður þetta verk, hversu fjárfrekt verður það? Þetta verður gríðarlegur kostnaður fyrir hið opinbera á sama tíma og við erum að tala um að draga saman opinber útgjöld. En ekki bara fyrir ríkissjóð, að sama skapi mun þetta væntanlega líka þýða aukinn kostnað og fyrirhöfn fyrir íbúa landsins.

Við höfum mörg hver viljað stefna að því að gera lífið einfaldara og draga úr regluverkinu og bákninu sem mörgu fylgir í þessu samfélagi, en það er nú ekki á það bætandi ef menn ætla að útvíkka lögin með þessum hætti. Mér finnst mikilvægt að heyra frá hv. þingmanni hvort hann viti hvenær slíkar tillögur munu koma fram í þinginu og hvort mönnum sé virkilega alvara með slíkri útvíkkun. Ég vara algjörlega við þessari þróun og ekki mun skrifræðið minnka við þessa breytingu ef hún verður að veruleika.