141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er svo viðamikið, ræður stjórnarþingmanna það fáar og það mörg atriði sem ég þarf að koma að í spurningum að ég hef ekki fengið svör við þessu, nema þetta andsvar við Álfheiði Ingadóttur. Eins og ég var að segja kallar þetta eiginlega á sérstaka umræðu. Ég sagði í gær að mér fyndist að ég ætti að hafa lengri ræðutíma en aðrir, í því er auðvitað mikil sjálfhverfni en mér liggur bara svo margt á hjarta um þetta mál og mig langar svo að vita hvaða hugmyndir eru þarna að baki.

Ætlar meiri hluti nefndarinnar sér virkilega að koma fram með breytingartillögur á lögunum þess efnis að allar virkjanir, hversu smáar sem þær eru, falli þarna undir? Ég veit það ekki. Það hefur ekki komið fram í umræðu hvort menn séu hreinlega að smíða þessar breytingartillögur og ætli að leggja þær fram og þær verði kannski fyrsta mál á dagskrá eftir áramót. Ég þekki það ekki, því miður, vegna þess að ekki nægilega margir flutningsmenn eða þeir sem standa að þessu nefndaráliti hafa gefið færi á sér þannig að maður geti spurt þessara spurninga. Maður fær kannski svar við einum þætti en vantar miklu dýpri umræðu.

Þetta var bara einn stafliður sem ég talaði um. Stafliðirnir sem beint er til ráðherra og Alþingis eru fimm, þar á meðal þessi og síðan hugmynd um að störf verkefnisstjórnar taki einnig til annarrar orkuvinnslu, þ.e. möguleika á vindorku og sjávarfallaorku, að verkefnisstjórnin taki ekki bara vatnsafl og jarðvarma heldur alla þá virkjunarkosti sem hægt er að fara í í framtíðinni og meti þannig þörfina fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir. Það er ekki og var ekki hlutverk verkefnisstjórnar að meta hversu mikið ætti að virkja, heldur einfaldlega að gera þennan ramma. Hér er að mínu viti verið að gerbreyta verkefninu og mig vantar að fá að vita hvaða hugsun er þar að baki vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir samhengi hlutanna hér og niðurstöðuna í þeirri (Forseti hringir.) atkvæðagreiðslu sem stendur væntanlega fyrir dyrum um þetta mál.