141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í síðara sinn rammaáætlun svokallaða, þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þetta er eitt af stóru málunum í þinginu, og eitt af þeim málum sem ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. ríkisstjórn hafi tekist að taka úr góðum farvegi, vönduðu vinnuferli, og eyðileggja. Það er, eins og komið hefur fram í umræðunni, grafalvarlegt og mjög sorglegt.

Ég nefndi í andsvari í gær að sú niðurstaða sem birtist í þessari þingsályktunartillögu er lægsti mögulegi samnefnarinn, samnefnari sem ég leyfði mér að fullyrða í gær að enginn væri ánægður með, enginn væri sáttur með. Sumir úr stjórnarliðinu hafa kallað þetta málamiðlun, en ég vil frekar kalla þetta uppgjöf gagnvart verkefninu. Ég segi enn og aftur að verði rammaáætlun samþykkt svona eins og nú virðist stefna í — umræðunni lýkur væntanlega á næstunni miðað við hvernig mælendaskrá er samansett núna — er hún pólitísk. Þetta er pólitísk rammaáætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur ekkert gildi til framtíðar og skuldbindur enga ríkisstjórn hér eftir vegna þess að vikið er í grundvallaratriðum frá því ferli sem sett var af stað fyrir allmörgum árum.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram frumvarp í þeirri viðleitni að reyna að koma málinu aftur inn á þá braut sem það var. Ég verð að segja, frú forseti, að það veldur mér vonbrigðum að frumvarpið skuli ekki fást rætt hér á sama tíma og rammaáætlun. Það er fast í nefndinni og ég spyr hv. formann umhverfis- og samgöngunefndar, sem er í salnum, hverju það sæti að frumvarp okkar sjálfstæðismanna hefur ekki verið afgreitt út úr nefndinni og af hverju það er ekki rætt hér samhliða rammaáætlun. Sú tillaga sem við gerum er einmitt að kalla verkefnisstjórnina saman og láta hana ljúka því verki að flokka virkjunarkostina samkvæmt skýrslunni sem gerð hefur verið og vinnunni sem farið hefur fram. Það er grátlegt að sjá allt það starf nánast að engu verða þegar málið kemur inn í þingið og pólitísk fingraför ríkisstjórnarinnar eru sett á það. Það er slæmt.

Ég held í einlægni að þetta frumvarp okkar sé leið til að koma málinu upp úr skotgröfunum, úr því átakaferli sem það er því miður komið í. Skiptar skoðanir eru um þetta mál, við höfum mismunandi skoðun á því öllu. En ef við gætum treyst vinnunni, ef við gætum treyst því að niðurstaðan sem fengist væri byggð á rannsóknum, rökum og faglegum mælikvörðum held ég að fólk ætti auðveldara með að sætta sig við niðurstöðuna heldur en ef þetta er gert eins og núna, þegar málið verður að pólitískri skiptimynt á milli stjórnarflokkanna. Þetta vildi ég segja um vinnuna sjálfa og frumvarp okkar. Ég leyfi mér, frú forseti, að fjalla aðeins um frumvarp okkar þó að það sé ekki á dagskrá vegna þess að ég tel að það skipti miklu máli.

Mig langar, vegna þess að tíminn er knappur, að ræða um tvö atriði. Mig langar að fara aðeins yfir Reykjanesið og mig langar til að víkja að tveimur virkjunarkostum í vatnsafli sem væri hægt að færa úr biðflokki í nýtingarflokk ef sömu rök væru látin gilda um þá og notuð voru við að færa virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár úr nýtingarflokki í biðflokk. Það var gert með þeim rökum að upplýsingar skorti, m.a. um laxagengd í neðanverðri Þjórsá. Sagt var að setja þyrfti þessa kosti í biðflokk vegna þess að upplýsingar vantaði um þetta. Allt í lagi. Ég er ekki sammála því, en þetta var niðurstaðan.

Beitum þá þessum rökum líka á Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley. Minnisblað var lagt fyrir nefndina sem dagsett er 5. janúar 2012. Það stendur skrifað á umsögninni að hún sé frá Rarik, en minnisblaðið er til ráðherra og ráðuneytisstjóra frá orkuskrifstofu þannig að ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið í gamla iðnaðarráðuneytinu þáverandi. Þar er einmitt fjallað um þessa mögulegu virkjunarkosti í vatnsafli sem hægt væri að færa og ítarlega rætt um þær tvær virkjanir sem ég vil ræða hér og reyndar fleiri, en ég ætla að einskorða mig við þessar tvær.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Hagavatnsvirkjun er í drögum að þingsályktunartillögunni flokkuð í biðflokk með eftirfarandi rökstuðningi: „Óvissa um gildi virkjunar til að draga úr uppblæstri og sandfoki. Stíflun útfalls Hagavatns rýrir gildi svæðisins fyrir ferðamenn.““

Síðan er umsagnarferlið í fyrra með tillögunni, 2011, rakið. Fimm umsagnir beindust sérstaklega að þessari virkjun. Þær komu frá Bláskógabyggð, ferðamálafulltrúa uppsveita Árnessýslu, Íslenskri vatnsorku, landeigenda Úthlíðartorfu og Kristni Briem. Allar voru þær samhljóða um að færa ætti Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Það er farið sérstaklega yfir það í umsögnunum hversu jákvæð áhrif virkjunin mundi hafa á ferðaþjónustu og að hún mundi draga úr uppblæstri, einmitt þau atriði sem höfðu verið gagnrýnd.

Í niðurstöðu orkuskrifstofunnar, minnisblaðinu, segir, með leyfi forseta:

„Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar komu fram upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að Hagavatnsvirkjun rýri gildi svæðisins fyrir ferðamenn og jafnframt að virkjunin sé líkleg til að draga úr uppblæstri og sandfoki og auka möguleika á landgræðslu. Var því í umsagnarferlinu brugðist við þeim atriðum sem tilgreind voru í rökstuðningi þingsályktunartillögunnar fyrir flokkun í biðflokk. Með vísan til þessa, og að með framkvæmdinni er verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, þykir rétt að færa Hagavatnsvirkjun úr biðflokk í orkunýtingarflokk.“

Nú vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra sem hér situr og formann nefndarinnar: Af hverju var þetta ekki gert? Vísa ég aftur til rökstuðningsins um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Af hverju var ekki sömu röksemdafærslu beitt í þessu tilviki?

Um Hólmsárvirkjun neðri við Atley er sagt í minnisblaðinu, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir röðun og könnun verkefnisstjórnar er Hólmsárvirkjun neðri við Atley í drögum að þingsályktunartillögunni flokkuð í biðflokk með eftirfarandi rökstuðningi: „Mat faghópa var ekki byggt á nýjustu gögnum. Óvissa er með áhrif á skóglendi og hvar línulögn mun liggja. Vantar frekari upplýsingar.““

Síðan er rakið í minnisblaðinu að þrjár umsagnir hafi borist um þetta. Tvær þeirra voru í þá veru að færa virkjunarkostinn úr biðflokki í verndarflokk en ein í þá veru að færa hann í orkunýtingarflokk.

Síðan kemur að niðurstöðunni, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Í umsagnarferlinu komu fram upplýsingar sem sýna fram á að ekki sé ástæða til að ætla að óvissa sé með áhrif framkvæmdarinnar á skóglendi eða hvar línulögn muni liggja vegna virkjunarinnar. Líta ber svo á að gæði gagna séu fullnægjandi og því ekki þörf á frekari upplýsingu til að unnt sé að raða virkjunarkostinum annaðhvort í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Með vísan til röðunar verkefnisstjórnar og könnunar verkefnisstjórnar eru því rök til þess að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley úr biðflokki í orkunýtingarflokk, þar sem fullnægjandi upplýsingar eru til staðar.“

Ég vil spyrja sömu spurningar og ég spurði áðan: Af hverju er ekki tekið mark á þessum gögnum í þingsályktunartillögunni við mat á virkjuninni, nákvæmlega eins og gert var um virkjanir í neðri hluta Þjórsár?

Mér finnst þetta gríðarlega alvarlegt. Ég er að sjálfsögðu mjög mótfallin því, og ég vil að það komi skýrt fram, að virkjanirnar í Þjórsá séu færðar þvert á ráðleggingar verkefnisstjórnar. Það er að mínu mati röng ákvörðun. Þetta er svæði sem þegar hefur verið nýtt og mér finnst rangt að breyta þessari ákvörðun. Með þeim rökum sem beitt var hefði verið hægt að færa Urriðafossvirkjun, en leyfa hinum tveimur að halda sér vegna þess að þau rök sem eiga við um Urriðafossvirkjun eiga ekkert við um efri tvær virkjanirnar. Það er því markleysa að verið sé að byggja á rannsóknum og rökum. Þetta er ekkert annað en pólitísk ákvörðun og það er þarna sem ríkisstjórnin fór út af sporinu með þessa vinnu alla. Þau tvö dæmi sem ég nefndi áðan og neðri hluti Þjórsár eru skýrt dæmi um það.

Mig langar síðan að ræða um Reykjanesið vegna umræðunnar um það, sérstaklega um það sem snýr að Eldvörpum og áhuga tiltekinna aðila, þar á meðal hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, um að færa Eldvörpin úr nýtingarflokki í verndarflokk. Ég held að sú umræða sé á miklum villigötum og við höfum átt orðaskipti um það hér. Því er haldið fram að það skorti á rannsóknir, við vitum ekki nógu mikið um jarðhitann og að við þurfum að afla okkur meiri upplýsinga áður en við tökum ákvörðun um að færa þetta svæði í nýtingarflokk.

Ég get alveg tekið undir þetta og það er einmitt kjarni málsins. Ef virkjunarkostur er í biðflokki er ekki hægt að vinna þær rannsóknir sem þarf að gera. Það má ekki bora. Núna er tæknin orðin þannig að hægt er að beita skáborunum og það er magnað að fylgjast með því hvernig þær eru gerðar til að raskið á svæðinu verði sem allra minnst. Lykilatriði þess að hafa kosti í nýtingarflokki er að þá er hægt að gera þær rannsóknir sem þarf.

Í öðru lagi vil ég segja það að jafnvel þótt kostir séu komnir í nýtingarflokk er ekki þar með sagt að búið sé að gefa leyfi á gröfurnar. Þetta er aðeins fyrsta skrefið. Síðan á eftir að klára skipulagsatriði sem snúa að sveitarfélögum og stofnunum hæstv. umhverfisráðherra, það á eftir að fara í gegnum umhverfismat og leyfisveitingar og ég man ekki hvort það eru 18 skref sem þarf að taka þegar ákvörðun hefur verið tekin um að hafa kost í nýtingarflokki. Það er því rangt þegar menn halda því fram að þegar kostur er kominn í nýtingarflokk sé bara búið að gefa eitt allsherjarleyfi út. Því fer fjarri. Og að sjálfsögðu dettur engum heilvita manni í hug að skerða gígaröðina þarna eða önnur áþekk náttúrufyrirbæri, enda eru þau vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum. Það er rangt að halda því fram að þau svæði sem búið er að ræða mikið um í umræðunni séu í einhverri hættu.

Varðandi það sem snýr að Grindavíkurbæ hefur verið lögð svokölluð hverfisvernd á hluta svæðisins og þar eru framkvæmdum settar mjög þröngar skorður af hálfu sveitarfélagsins, einmitt til að breyta sem minnst ásýnd svæðisins. Þessi margumrædda gígaröð er á hverfisverndarsvæðinu. Verndun er sett á sjálfa gígaröðina og um 200 metra belti samsíða henni, sinn hvorum megin við röðina, þannig að teinarnir fyrir rannsóknarboranirnar eru annaðhvort færðir að vegslóðum sem eru fyrir á svæðinu eða inn á iðnaðarsvæði sem sveitarfélagið hefur sjálft skipulagt suður af gígaröðinni. Ég vil að þetta komi skýrt fram. Menn segja að þetta sé óspillt svæði, útivistarsvæði nálægt höfuðborgarsvæðinu. En ég vil líka benda á að þetta svæði er nálægt stærsta og fjölmennasta byggðasvæði landsins þar sem einmitt er mest þörf fyrir aukna orku vegna fjölgunar íbúa og vegna atvinnuuppbyggingar. Við þurfum jú að lifa í þessu landi og við þurfum að nýta auðlindir okkar skynsamlega í sátt við náttúruna eins og við frekast getum.

Mér sem íbúa á Suðurnesjunum finnst algjörlega grátlegt að heyra rætt um nýtingu og atvinnupólitík á mjög léttúðlegum nótum oft á tíðum, og að þetta sé afskrifað sem eitthvað ómerkilegt og skipti ekki máli í þessu samhengi. Þetta skiptir óvart gríðarlega miklu máli fyrir okkur sem búum þarna. Það eru ekki lítil rök.

Síðan er hægt að minnast á hvernig það fer saman að nýta náttúruauðlindirnar og að njóta þeirra. Þetta svæði er einmitt afar gott dæmi um það og þarf ekki annað en að nefna Bláa lónið í því samhengi. Það er væntanlega til komið vegna mesta umhverfisslyss Íslandssögunnar, en það er dæmi um það hvernig er hægt að draga ferðamenn að svæðinu með starfsemi sem er til komin vegna nýtingar jarðvarmans á svæðinu.

Í mínum huga fer þetta því allt saman. Ég held að við ættum að gæta þess að taka umræðuna á rólegum og yfirveguðum nótum og dæma ekki kosti úr leik fyrir fram. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ef rammaáætlun verður samþykkt svona er hún á ábyrgð þessarar ríkisstjórnar og skuldbindur ekki (Forseti hringir.) okkur hin inn í framtíðina.