141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, til að ítreka spurninguna frá hv. þingmanni sem ég var reyndar búin að svara, þá er það þannig. Þessi rammaáætlun, eins og ég fór yfir í ræðu minni, skuldbindur okkur sem ekki styðjum hana akkúrat ekki neitt og henni verður breytt. Það er bara þannig.

Varðandi neðri hluta Þjórsár er það að mínu mati þyngra en tárum taki að sjá í orðsins fyllstu merkingu allt það vatn renna til sjávar ónýtt á hverjum einasta degi, sérstaklega í ljósi þess að við þurfum svo á atvinnuuppbyggingu að halda. Við höfum ekki efni á því að láta auðlindir okkar ekki vinna fyrir okkur. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á atvinnuástandið, ekki bara í heimabæ mínum, Reykjanesbæ, þar sem áhrifanna verður strax vart vegna Helguvíkur, heldur á Suðurlandinu öllu.

Þeir sem sitja við völd núna og halda um stjórnartaumana tala mikið um lýðræði og að lýðræðið eigi að fá að ráða. Það vill svo til að í seinustu sveitarstjórnarkosningum var nánast — það er hægt að segja það — kosið um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Í þeim hreppum sem um ræðir var þetta stærsta kosningamálið og í báðum tilfellum gjörsigruðu þeir sem voru fylgjandi því að virkja í neðri hluta Þjórsár kosningarnar. Vilji meiri hluta heimamanna á þessum svæðum er því skýr (Forseti hringir.) og þess vegna finnst mér algjörlega fráleitt þegar tekið er fram fyrir hendurnar (Forseti hringir.) á heimamönnum eins og núna.